145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:12]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar aðeins að spyrja hann út í byggðamálin. Fjölmargar breytingartillögur frá ríkisstjórninni og meiri hlutanum snúa að byggðamálum. Við deilum því alveg örugglega að það sé mikilvægt að efla byggðir landsins.

En mér finnst þetta vera mjög tilviljanakennt og einkennilegar ráðstafanir víða. Ég vil spyrja hv. þingmann: Af hverju skar ríkisstjórnin niður sóknaráætlun landshluta sem við getum talað um sem byggðaáætlun? Þar er ákveðið verklag sem mjög mikil ánægja er með, þar úthluta menn fé og deila því út og forgangsraða heima í héraði eftir ákveðnum verkferlum.

Það sem ég skil ekki er: Af hverju eru peningar bara ekki settir í sóknaráætlun landshluta eins og fyrri ríkisstjórn hafði ráðgert? Er það ekki betri leið en að meiri hlutinn sé að ráðstafa fjármunum, svolítið svona hægri vinstri, í einstaka verkefni?