145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:14]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var ástæða fyrir því að menn breyttu um verklag; það þóttu ekki fagleg vinnubrögð að einstaka þingmenn væru að taka sér vald.

Þetta snýr ekki bara að verkefnum sem hafa með byggðamál að gera. Það eru líka fjölmörg frjáls félagasamtök og einnig menningarstarfsemi sem verið er að deila peningum til. Nú er til dæmis í fjárlagafrumvarpinu kafli yfir hvert ráðuneyti sem heitir „Skuldbindandi samningar“ og verið að tala um hvernig ráðuneytin eigi að gera skuldbindandi samninga þegar þau láta peninga í verkefni til einhverra ára fram í tímann.

Ég hlýt að spyrja: Hvernig er hægt að tryggja hlutina, þegar fjárlaganefnd útdeilir með þessum hætti? Það eru engir samningar sem liggja þarna að baki. Þetta eru bara tímabundnar fjárveitingar, kannski í eitt ár. Ég vil miklu frekar að þetta fari í gegnum ráðuneytin, að gerðir séu samningar. Við eigum síðan að vera með eftirlit með ráðuneytunum og fylgjast með því að jafnræði sé viðhaft. En nú eru engir skuldbindandi samningar. Þetta eru bara tímabundin fjárframlög; svolítið hægri vinstri svona, eftir geðþótta kannski.