145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:16]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, menn stóðu í þeirri meiningu að það væri verið breyta til hins betra.

Á bls. 10 í nefndarálitinu segir — akkúrat það sem hv. þingmaður er að benda á:

„Meiri hlutinn telur brýnt að ríkisstjórnin skipi þingmannanefnd í byrjun árs 2016 sem fái það hlutverk að skoða ýmiss konar félagasamtök og fjárveitingar til þeirra, samlegð og rekstrarhagkvæmni.“

Engu að síður gerir meiri hlutinn tillögur um einstaka styrkveitingar á safnliðum. Vakin er athygli á því að oft er verulegur afgangur af ýmsum styrkjaliðum einstakra ráðuneyta ár eftir ár og inneignir jafnvel felldar niður um áramót. Þannig má fullvíst telja að allar minni háttar styrkveitingar rúmist innan núverandi fjárheimilda og mun meiri hlutinn taka mið af því í framtíðinni.

Þetta hefur ekki verið að koma vel út. Það eru að koma aðilar fyrir nefndina sem hafa ekki verið sáttir við þær móttökur sem þeir hafa fengið inni í ráðuneytunum hjá embættismönnunum. Þess vegna leggjum við til að það verði farið yfir þetta mál.