145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:24]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég mátti til með að koma með þau rök sem ég notaði við sjálfan mig þegar ég var í þeirri atkvæðagreiðslu og sagði nei.

Hv. þingmaður stóð hér fyrr í dag og hneykslaðist á því að menn væru að taka afstöðu og hefðu engar tölur á bak við það og fleiri þingmenn komu hingað í pontu og höfðu hátt um það að við hefðum engar tölur.

Hér var ég að leitast við að rökstyðja það að bæturnar sem koma núna 1. janúar, búið væri að reikna þessa afturvirkni. Það væri búið að reikna hana inn í þá tölu og að bætur hjá einhleypum manni með heimilisuppbót, að eftir áramótin væri hún hærri en lágmarkslaun sem væru 245 þús. kr.