145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:25]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Hvernig átti það að hvarfla að nokkrum manni að þetta væri rökstuðningurinn fyrir því að neita öldruðum og öryrkjum um afturvirkni á bótum eins og hjá öðrum launþegum? Hvernig átti það að hvarfla að nokkrum einasta manni að bætur undanfarinna ára væru orðnar það miklar, eins og hv. þingmaður er að segja og reyndar staðfesti áðan, að þeir væru búnir að fá nóg? Þeir væru búnir að fá nóg. Aldraðir og öryrkjar á Íslandi eru búnir að fá nóg að mati Framsóknarflokksins og þingmanna Framsóknarflokksins. Þeir fá ekki meira. Þeir þurfa ekki meira. Það er búið að ausa nóg af milljörðum og prósentum ofan í kjaftinn á þeim.

Þetta er það sem hv. þingmaður var að segja. (Gripið fram í.) Ég hefði trúað þessu upp á suma sjálfstæðismenn, en að Framsókn skuli koma (Gripið fram í.) hingað upp í ræðustól, fulltrúi Framsóknarflokksins, (Gripið fram í.) gamla bændaflokksins, félagshyggjuflokksins og ryðja þessu ofan í öryrkja og aldraða, að þeir séu bara búnir að fá nógu andskotans nóg (Gripið fram í.) og fái ekki meira, það er Framsóknarflokknum til skammar og þeim sem hafa slík orð á lofti.(Gripið fram í: Heyr, heyr)