145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:33]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Umræða um fjárlög er harla merkileg umræða fyrir margra hluta sakir. Í fyrsta lagi er það svo að fjárlagafrumvarp hverrar ríkisstjórnar er eins konar stefnuyfirlýsing hennar. Þar kemur fram forgangsröðun og áherslurnar sem ríkisstjórnin vill fylgja fram.

Mér hafa þótt þessar umræður áhugaverðar um margt og heldur batna eftir því sem á líður og menn fara að beina sjónum að einstökum stofnunum og einstökum liðum fjárlagafrumvarpsins. Mér kemur í hug hvað komi til með að breytast eftir að við samþykkjum, sem allt bendir til að þingið geri, nýtt frumvarp um opinber fjármál sem liggur fyrir þinginu og bíður þess eins að fara í lokaatkvæðagreiðslu. Þau eru mun færri sem eru gagnrýnin á það frumvarp en ég hafði ætlað, ég er það mjög, og mér finnst gagnrýni mín endurspeglast í umræðunni um fjárlögin eins og hún hefur verið að birtast.

Hér var sagt, í morgun held ég að það hafi verið, af hálfu stjórnarþingmanns að honum fyndist of mikið fara í heildarliðinn utanríkismál og hann sagði: Þetta horfir allt til betri vegar næsta ár því þá förum við að skoða heildarlínurnar og taka ákvörðun að vori um hvar þær eigi að liggja, hve mikið eigi að fara í heilbrigðismálin og menntamálin og síðan í utanríkismálin. Þetta fannst honum og finnst mörgum þingmönnum vera mikið framfaraspor.

Ég hef ákveðnar efasemdir um það vegna þess að ég tel að með þessu móti verði klippt á þann naflastreng sem við sjáum nú á milli þingsins og þjóðarinnar, stofnana samfélagsins og þjóðarinnar. Fjárlagafrumvarp sem tekur breytingum í meðförum þingsins þróast á réttan veg tel ég vera. Auðvitað viljum við fagleg vinnubrögð við upphafsgerð fjárlagafrumvarps. En aldrei getur fjárlagafrumvarp orðið svo gott að það eigi ekki að taka breytingum þegar sjónarmið utan úr samfélaginu koma til sögunnar.

Ég vil nefna dæmi um breytingu sem er að verða, ekki stóra eða mikla breytingu. Hún snýr að háskólanum á Hvanneyri, Landbúnaðarháskóla Íslands. Hvers vegna er hann mér ofarlega í huga? Það er vegna þess að málefni skólans komu inn á okkar borð sem sitjum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins. Ríkisendurskoðun gerir skýrslu um þann skóla og fjárhag hans eins og um ýmsar aðrar stofnanir. Skýrslan kemur til kasta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og fyrir nefndina koma fulltrúar Ríkisendurskoðunar, þeirra ráðuneyta sem skólinn heyrir undir, sem eru menntamálaráðuneytið og atvinnuvegaráðuneytið, og fulltrúar skólans. Það kemur fram að skólinn er að komast inn undir þær heimildir sem honum eru ætlaðar af þingi og það er vel, en þá kemur í ljós að pottur er brotinn að öðru leyti vegna þess að þótt skólinn sé að komast inn í réttan farveg excel-skjalsins, þá er hann ekki lengur að rækja þær skyldur sem samfélagið ætlast til af honum. Hvað gerist þá? Þingið tekur málið til skoðunar og beinir því til fjárlaganefndar að bæta úr og viti menn, fram kemur breytingartillaga frá fjárlaganefnd um aukið framlag til þessarar stofnunar.

Ég tek þetta sem dæmi um lifandi umræðu sem ég held að sé betri og frjórri í því fyrirkomulagi sem við höfum nú við fjárlagagerðina en ætla má að verði eftir að lög um opinber fjármál koma til framkvæmda. Þetta er dæmi um það sem ég tel vera af hinu góða.

Annað dæmi tel ég mig þurfa að nefna sem er ekki eins gott og það er um embætti umboðsmanns Alþingis. Þar er skorið niður um 13 millj. kr. og ástæðan hefur verið tilgreind sú að umboðsmaður Alþingis sé kominn í ódýrara húsnæði. Hann hafi verið í dýru leiguhúsnæði en sé núna kominn í húsnæði á vegum þingsins og þess vegna sé hægt að skera niður við embættið.

Nú er það svo að það er samhljómur um það í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að efla beri að efla vissa verkþætti hjá þessu grundvallarembætti í okkar lýðræðisþjóðfélagi. Það eru alls kyns forvarnastörf, getum við kallað, forkannanir þar sem embætti umboðsmanns tekur tiltekið mál til athugunar og það hefur sýnt sig að það hefur iðulega komið skilaboðum til stjórnsýslunnar almennt sem hafa verið til góðs. Við höfum saknað þess í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins að embættið geti ekki sinnt þessu hlutverki sem skyldi. Þess vegna hefur stjórnarandstaðan lagt til að við verðum við óskum umboðsmanns Alþingis um að veita 15 millj. kr. til viðbótar til embættisins. Mig langar til að leggja sérstaka áherslu á það við þessa umræðu þar sem það snertir þá nefnd sem ég veiti formennsku í þinginu.

Við þessa umræðu hafa menn staðnæmst sérstaklega við einn þátt og það eru málefni öryrkja og aldraðra. Menn horfa þá einkum til þeirra sem hafa þar lægstu kjörin, það fólk á Íslandi sem býr við erfiðastan kost, sérstaklega öryrkjar og aldraðir sem búa ekki í eigin húsnæði og þurfa að sækja mikla læknisþjónustu. Ég held að við eigum aldrei að hætta að minna á það í þessum sal að kannanir sem gerðar hafa verið, m.a. á vegum Krabbameinsfélags Íslands og hins vegar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, hafa sýnt fram á þannig að ekki verði vefengt að tekjulægstu hóparnir og sérstaklega úr þessum röðum, frá öldruðum og öryrkjum, veigra sér við að leita rándýrrar læknisþjónustu. Þessar sömu kannanir hafa jafnframt sýnt okkur að upp úr vasa sjúklinga kemur núna fimmtungur af útgjöldum til heilbrigðismála þannig að þetta er hið versta mál.

Síðan er það réttlætismál að þessir lágkjarahópar verði látnir búa við sambærilegt fyrirkomulag og launafólk í landinu hvað varðar atvinnuréttindi. Þess vegna var sett fram tillaga af hálfu stjórnarandstöðunnar við fjáraukann að við veittum 6,5 milljarða kr. í afturvirkar bætur, aftur á mitt þetta ár, til handa þessum hópum. Síðan er stjórnarandstaðan með breytingartillögur sem gera ráð fyrir því að þessir hópar fái sambærilegar hækkanir og launafólk á komandi ári. Ég held að ástæða sé til að staldra sérstaklega við þennan þátt því þetta er réttlætismál. Fyrir þá sem gefa minna fyrir réttlætið en meira fyrir hagræðið er þetta mjög skynsamlegt, þetta er skynsamleg efnahagsleg ráðstöfun. Jafnaðarsamfélagið eða jöfnuður í þjóðfélaginu leiðir af sér miklu heilbrigðari hagvöxt en verður í misréttissamfélagi. Aukin kaupgeta lágtekjuhópa skilar sér innan lands í ríkari mæli en gerist þegar misskipting verður mikil, einfaldlega vegna þess að lágtekjufólkið kaupir þá dagblöð, bækur og fer í bíó og leikhús og hugsanlega út að borða, vill taka þátt í lífinu, en hátekjufólkið og þeir sem efst tróna eru líklegir til að fara með peningana út, kaupa rándýra bíla, fara í dýrar reisur og þar fram eftir götunum. Ráðstafanir í átt til jafnaðar eru því til góðs fyrir hagkerfið.

Mig langar til að fara nokkrum orðum um Ríkisútvarpið. Ég hef ekki alltaf verið sáttur við Ríkisútvarpið þótt ég beri mjög hlýjar taugar til þess, ætli það eigi ekki við um okkur öll að stundum erum við sátt og stundum erum við ósátt. En Ríkisútvarpið gegnir hins vegar mjög veigamiklu hlutverki í samfélagi okkar. Það er ákveðinn lýðræðispóstur, getum við kallað, og hefur líka menningarlegu hlutverki að gegna. Þess vegna þurfum við að standa vörð um það. Margir hafa talað fyrir því að Ríkisútvarpið fari út af auglýsingamarkaði. Væri ég fylgjandi því? Nei, ég væri ekki fylgjandi því. Teldi ég það skemmtilegra útvarp að vera án auglýsinga og væri það betra fyrir aðra fjölmiðla á markaði? Já, tvímælalaust. En við megum aldrei gleyma því að við erum ekki nema 330 þúsund talsins og við getum ekki borið okkur saman við BBC eða stóru ríkisútvarpsstöðvarnar erlendis. Ef við ætlum að gefa frá okkur auglýsingatekjurnar, þá verðum við annaðhvort að skera verulega niður við stofnunina eða hækka verulega iðgjöldin til hennar og manni heyrist nú ekki vera sérstök stemning fyrir því að gera það. Þetta eru veruleikinn sem við verðum að horfa til.

Hins vegar er ég því fylgjandi að við setjum ýmsar strangari reglur um auglýsingar í Ríkisútvarpinu og reynum t.d. að komast hjá hvers kyns kostun í dagskrárgerð sem hefur verið slæmur siður allt of lengi. Ég vil höfða til stjórnarmeirihlutans að sýna sanngirni í fjárveitingum til RÚV. Og hvað á ég við með sanngirni? Sitt sýnist nú hverjum þegar hún er annars vegar, en ég horfi til þess sem ég tel vera almennt viðhorf í samfélaginu. Ég held að almenningur á Íslandi, að þjóðin almennt vilji láta fara vel með Ríkisútvarpið. Ég er velviljaður öðrum fjölmiðlum líka, en ég tel að þarna sé þungamiðja, eins konar kjölfesta í fjölmiðlaflórunni sem við eigum að standa vörð um og hvet stjórnarmeirihlutann til að samþykkja aukin framlög til Ríkisútvarpsins.

Ég hef líka talað fyrir því að styrkja lögregluna og þá á ég við hina almennu löggæslu í landinu. Í kjölfar hrunsins var skorið gríðarlega niður þar og við megum ekki gleyma því að niðurskurðurinn í almennum rekstri til ýmissa lykilstofnana í þjóðfélaginu nam á milli 20 og 25% að raungildi. Það átti við um löggæsluna og þýddi í krónum talið að framlag til hennar var lækkað á ársgrundvelli um tæpa 3 milljarða, tæpar 3 þús. millj. kr. og þetta kom að sjálfsögðu harkalega niður á henni. Undir lok kjörtímabilsins þegar sólin fór heldur rísandi á lofti, þá sammæltumst við um það í þessum sal að við mundum gera allt sem við gætum til að stuðla að eflingu hinnar almennu löggæslu. Ég horfi þar til alls landsins, til Reykjavíkur og þéttbýlissvæðisins en ekki síður til hinna dreifðu byggða því staðreyndin er sú að víða hefur lögreglumönnum verið gert að fara um langan veg og stundum einir á báti, einir að sinna erfiðum verkefnum þegar þeir þyrftu að vera miklu fleiri. Þetta er það sem við þurfum að gera og við eigum að horfa til þess sem við samþykktum, ég held að það hafi verið í apríl 2013 að við ætluðum að rétta við fjárhag hinnar almennu löggæslu. Ég geri mér alveg grein fyrir því að það er ekki gert í einu vetfangi en við þurfum að stíga markvissari skref en við gerum nú.

Þessi ríkisstjórn er ekkert sérstaklega umhverfisvæn en hún er þó umhverfisvæn að því leyti að hún hefur endurnotað framlag sem var sett á síðasta kjörtímabili sjálfri sér til framdráttar þegar hún hamrar á því að 500 millj. kr. viðbótarfjármagn hafi verið sett til lögreglunnar. Staðreyndin er sú að að hluta til eða 200 millj. kr. voru komnar á síðasta kjörtímabili, að vísu sem eingreiðsla en hugsaðar til frambúðar, og svo komu 300 millj. kr. Síðan er verið að setja einhverja peninga inn til viðbótar en það dugar ekki vegna þess að löggæslustörfin eru grundvallarstörf og það skiptir gríðarlega miklu máli að fá gott fólk til starfa í lögreglunni. Við höfum marga góða lögreglumenn en við þurfum að bæta starfsumhverfi lögreglunnar og við eigum að styrkja þann þátt en ekki fá veikri lögreglu byssu í hendur. Það er varasöm leið. Reyndar hefur komið fram og það finnst mér vera ánægjulegt í umræðu hér á undanförnum dögum að ekki vakir fyrir stjórnvöldum að vopnvæða lögregluna í ríkari mæli en verið hefur og það er gott. Mér finnst skipta miklu máli að við náum samstöðu um það í þinginu og ég hygg að eftir umræður sem urðu um daginn hafi málið skýrst og það er vel. En þá er eftir að við sameinumst um að bæta hag lögreglunnar.

Það er víða hægt að bera niður. Mig langar þó til að nefna eitt sérstaklega og það snýr að Vegagerðinni og samgöngumálum. Ég held að við höfum farið of langt í þá átt á undanförnum árum að einblína á stórframkvæmdir. Það eru göng og stórframkvæmdir sem hafa verið mál málanna þegar við hefðum átt að láta hlutfallslega meira fjármagn fara til viðhalds á vegum og almennrar þjónustu vegakerfisins. Vegagerðin gagnrýndi okkur á síðasta kjörtímabili fyrir að fara ekki þá leið heldur horfa of mikið á stórframkvæmdir og ég held að sú gagnrýni hafi að mörgu leyti verið rétt.

Það er annað sem við þurfum að hyggja að þegar Vegagerðin er annars vegar. Nú er það svo að eiginlega allflestar framkvæmdir á hennar vegum eru boðnar út. Það eru verktakar sem koma að þeim málum. Ég gagnrýni það ekki í sjálfu sér. Hins vegar verður að vera til staðar kjarni, kjarnaþekking, kjarnahópar sem búa yfir vitneskju og reynslu sem hæglega getur glatast í fallvöltum heimi verktakanna. Ég tek sem dæmi að þegar Múlakvísl tók brúna rétt fyrir austan Vík sumarið 2011, þá byggði Vegagerðin nýja bráðabirgðabrú á einni viku. Það tók hana eina viku. Þetta hefði ekki gerst neins staðar annars staðar á byggðu bóli vegna þess að hvergi er meiri þekking í viðureign við jökulár en á Íslandi og sú þekking er til staðar hjá Vegagerðinni. Það hafa verið tveir hópar sem hafa sérhæft sig í framkvæmdum af þessu tagi, annar hefur verið staðsettur í Vík og hinn á Hvammstanga. Það munaði mjóu að þessir hópar hefðu verið látnar fara, öllum sagt upp þegar þrengingar Vegagerðarinnar voru sem mestar, þegar fjármagninu var beint skilyrðislaust til framkvæmda en horft síður til innri styrkingar Vegagerðarinnar sjálfrar. Ég vil vekja athygli þingsins á því að þarna er þáttur sem við þurfum að huga að. Við þurfum að passa upp á þetta.

Ég get ekki hætt að ræða fjárlagafrumvarp án þess að víkja að heilbrigðismálunum sem mér finnst og hefur alltaf vera fundist vera mál málanna. Ég var formaður BSRB á þriðja áratug, yfir 20 ár, og ég hef oft sagt frá því að þegar ég mat hvað væri mikilvægast í kjarabaráttunni, hvort það væru launin eða velferðarkerfið eða einhverjir aðrir þættir, þá nefndi ég alltaf heilbrigðisþjónustuna, að menn hefðu aðgang að gjaldfrjálsri heilbrigðisþjónustu. Það er það sem máli skiptir þegar eitthvað fer úrskeiðis hjá okkur í lífinu. Ég held að við séum þegar allt kemur til alls sammála um þetta. Það er enginn á annarri skoðun hér hvað þetta snertir. Okkur greinar hins vegar á um hvaða skipulag er heppilegast. Og ég er mjög gagnrýninn á þá tilhneigingu sem mér finnst gæta nú hjá núverandi ríkisstjórn. Ég hef gagnrýnt það mjög harkalega og gagnrýnt Framsóknarflokkinn sérstaklega fyrir að hafa ekki bönd á Sjálfstæðisflokknum sem er stórhættulegur þegar kemur að heilbrigðismálum og markaðsvæðingaráráttu sem flokkurinn býr yfir í hættulega ríkum mæli. Ég held að við séum að verða svolítið vitni að því núna, ekki endilega að allt sé útspekúlerað plott heldur leiðir eitt af öðru. Þá gerast hlutirnir þannig að skorið er niður, geta heilbrigðisstofnananna til að sinna þjónustunni er skert og síðan er opnað fyrir farvegina út til sérfræðinga úti á markaði og þeir taka síðan verkefnin að sér. Það er það sem gerist.

Ég tók í umræðum í dag dæmi af almenna opinbera heilbrigðiskerfinu annars vegar og Domus Medica hins vegar. Ég veit að það er alltaf viðkvæmt þegar nefndar eru einhverjar stofnanir eða fyrirtæki sem menn taka síðan óstinnt upp og telja að maður sé að finna stofnuninni sjálfri allt til foráttu, en það er ég ekki að gera, ég er að tala almennt um fyrirkomulagið. Þegar sjúklingar voru sendir til skoðunar hjá Landspítalanum, upp að Landakoti lengi vel, voru framlög til þeirrar starfsemi skorin svo við nögl að stofnunin gat ekki sinnt þessu. Biðraðir mynduðust og hún gat ekki sinnt þessu. Þá var sjúklingurinn sendur upp í Domus Medica. Með honum fóru peningar. Þeir peningar söfnuðust síðan smám saman upp og urðu til þess að í Domus gátu menn keypt rándýr tæki, miklu dýrari og fullkomnari en það sem spítalarnir gátu. Það sem þarna hafði gerst var að peningarnir, þessi hugsun að fjármagn fylgi sjúklingi sem ég sé að sjálfsögðu að getur í sumum tilvikum átt ákveðna kosti, ég get séð það, fóru að stýra stefnunni. Þegar dæmið er gert upp þá vega ókostirnir þyngra vegna þess að peningarnir fara að taka völdin og stýra, markaðurinn fer að stýra. (Gripið fram í: Það er sjúklingurinn sem stýrir.) Jú, það er sjúklingurinn sem stýrir en svo ég taki dæmi af sjálfum mér, sjúklingi sem var sendur í röntgenmyndatöku og reyndist það erfiður sjúklingur að ég streittist á móti því að vera sendur upp í Domus og sagði við lækninn að hann væri ekki að taka bara heilsufarsákvörðun heldur ökonómíska ákvörðun og ég vildi ekki fara þangað. Það mun hafa verið skrifað í kladdann til að minna þá á það næst. Á endanum ræð ég engu um það vegna þess að það er skorið svo niður í almenna kerfinu að það getur ekki sinnt þessu. Það er ekki svo einfalt að sjúklingurinn sé einráður um þetta. Alls ekki. Það ræðst af aðstæðum, það ræðst af getu stofnana til að sinna þjónustunni og svara eftirspurn.

Síðan eru alls kyns þættir sem þarf að skoða sérstaklega, t.d. dreifbýlið. Það eru fáir sem vilja róa þar og reynslan erlendis frá hefur sýnt að í fátækum samfélögum er þetta erfiðara viðfangs en í ríkum bæjarhlutum eða sveitarfélögum. Þetta er hlutur sem við þurfum að taka til skoðunar og ræða og fara rækilega yfir. Það á ekki að geta gerst eins og við lásum um á forsíðu Fréttablaðsins í dag að helsti álitsgjafi um þá ákvörðun Heilsugæslunnar í Reykjavík að fara út á markaðshvatabraut, var hver? Það var forstjóri Samkeppniseftirlitsins. Það var ekki landlæknir, það var forstjóri Samkeppniseftirlitsins vegna þess að í þessa átt átti að fara, svo skildist manni á þessari frétt og skildist á yfirlýsingu þessa aðila fyrir ári síðan þegar hann var valinn forstjóri heilsugæslunnar. Hið sama mátti skilja á hæstv. heilbrigðisráðherra í sjónvarpi í síðustu viku þegar hann kom því áleiðis til þjóðarinnar að það væri einmitt þetta sem vekti fyrir honum. Hann væri svo sem tilbúinn að taka málið upp á þingi ef einhver hefði hug á því að ræða það við sig þar. Ég er margoft búinn að lýsa því yfir að ég er meira en tilbúinn að gera það og tel mjög mikilvægt að gera það. Þeir sem hafa sannfæringu fyrir því að þeir hafi góðan málstað geta varla óttast slíka umræðu.

Aðeins um Landspítalann. Menn horfa gjarnan til þróunar á framlögum til hans á sama hátt og horft er til þróunar á útgjöldum til almannatrygginga og þar með til kjarabóta fyrir öryrkja og aldraða án þess, því miður, að taka alltaf mið af þróun umhverfisins. Landspítalinn býr ekki við óbreytanlegt umhverfi. Það tekur stöðugum breytingum. Fjöldi þeirra sem spítalinn þjónar vex þannig stöðugt. Ég hef séð tölurnar 1,5–2% á ári. Og hvað þýðir það? Það þýðir ef það er fært yfir í krónur og aura um 800 millj. kr. eða tæpan milljarð á ári hverju, að því er mér er sagt. Nú er ég enginn sérfræðingur í fjármálum spítalans, menn þurfa að hafa legið vel yfir þeim fræðum til að tala um þau af einhverri nákvæmni, en auðvitað hlustum við á aðila eins og komu fram í fréttum Ríkisútvarpsins í dag, þar sem lagt var út af frétt eða grein sem birtist í Morgunblaðinu í morgun frá formanni prófessoraráðs, held ég að það hafi heitið, þar sem hann segir að 3 milljarða vanti til Landspítalans til að geta haldið rekstrinum í bærilegu horfi. Mér finnst að við þurfum að horfa til þessa og láta það ekki henda okkur sem gerðist með háskólann á Hvanneyri að horft sé bara á excel-skjalið en ekki þær skyldur sem lagðar eru á stofnunina. Ég gat um í upphafi að það er viðleitni í frumvarpinu núna af hálfu fjárlaganefndar að laga það og það er gott, ég fagna því. En við eigum að gera það sama við aðrar stofnanir þar sem við teljum að rök séu fyrir því að meira fjármagn þurfi inn.

Ég minnist þess að í niðurskurðinum í kjölfar hrunsins sem var mjög mikill og líka í heilbrigðisþjónustunni, fækkaði á Landspítalanum um 500 stöðugildi. Það er ekki lítið. Auðvitað er það svo að í stórum stofnunum á sér stað uppstokkun, endurskipulagning o.s.frv., en þetta var miklu meira en það. Mér er kunnugt um það og ég þekki það bara mjög vel úr nánum tengslum, að á deild sérhæfðra lækninga þar sem eiga að vera fjórir starfandi læknar var í síðasta mánuði bara einn starfandi. Viðkomandi læknir veit ég að spyr sjálfan sig: Hvað stenst ég þetta lengi? Við eigum að hlusta á svona og við eigum að horfa til þess sem gerist t.d. núna í tengslum við þetta dapurlega mál, þetta réttarmál, dómsmál sem lyktir voru að fást í í dag, góðu heilli á jákvæðum nótum finnst mér, mjög glaður yfir því. Allir eru að skoða hvar ábyrgð þeirra liggur og þurfum við ekki að gera það líka? Við þurfum að gera það líka. Við þurfum að spyrja hvort í sjúkrahúsinu kunni að vera kerfislægur vandi sem hlýst af fjárskorti. Við þurfum að skoða það og við þurfum að spyrja okkur í alvöru slíkra spurninga.

Svo ég komi aftur að byrjuninni á mínu máli þá finnst mér sú umræða sem er að skapast núna um fjárlögin góð, mjög góð, sérstaklega þegar menn fara að staðnæmast við einstaka stofnanir, einstaka starfsemi. Það er þetta sem ég óttast að glatist þegar við erum komin inn í hið nýja fyrirkomulag þar sem við látum sitja við það eitt á fyrstu stigum að ræða stóru línurnar, hvað á að fara mikið í menntamálin, heilbrigðismálin, utanríkismálin en setjum fókusinn aldrei á hið smáa.

Þar sem ræðu minni fer fljótlega að ljúka langar mig að staðnæmast við einn þátt sem margir mundu telja vera mjög smáan en mér finnst það ekki og hann snýr að eldra fólki í framhaldsskólum. Það var ákveðin stefna að setja þetta fólk út úr skólunum og beina því inn í aðra farvegi og þeir eru vissulega til margir á einkamarkaði, alls kyns skólar og námskeið og endurmenntun og þar fram eftir götunum en það eru hópar sem fóru út úr skólakerfinu og hafa viljað komast inn í það aftur. Þetta var kannski ein stærsta byltingin í kringum 1970 þegar félagsleg sjónarmið voru kraumandi í samfélaginu. Eitt af því sem gerðist þá var að kerfið opnaðist á ýmsum sviðum, m.a. í skólunum og í framhaldsskólunum. Þá urðu til sem kallaðar voru sums staðar öldungadeildir þar sem fólki sem var komið á þrítugsaldurinn, jafnvel yfir 25 ára gamalt, var opnuð leið inn í skólana að nýju. Nú var tekin um það pólitísk ákvörðun að vísa þessu fólki á dyr og segja: Við erum með takmarkað fjármagn og við þurfum að forgangsraða í þágu hinna yngri, þeirra sem eiga rétt á því að vera í skólanum. En er það hyggilegt? Getur ekki verið að við eigum að láta meira fé renna inn í skólana að þessu leyti í stað þess að beina þessu fólki inn í rándýrar einkalausnir? Ég held það. Ég held að við séum að stíga skref aftur á bak en ekki fram á við og ég leyfi mér að hvetja bæði menntamálaráðherra og menntamálaráðuneytið til að endurskoða stefnumörkun sína að þessu leyti og í kjölfarið fjárlaganefnd þingsins til að gera slíkt hið sama. Ég ætlaði varla að trúa því þegar það kom upphaflega hér upp að menn legðu áherslu á að koma eldra fólki út úr skólunum en þetta er veruleiki sem við þurfum að endurskoða.

Menn hafa við þessa umræðu farið vítt og breitt yfir tekjuöflun til að fjármagna þær breytingartillögur sem við í stjórnarandstöðunni leggjum til. Þá vísa ég aftur til þess að við erum að tala um 5 milljarða til öryrkja og aldraðra til að rétta þeirra hlut á næsta ári. Við erum að tala um 3 milljarða til Landspítalans sem mundi svara kalli forsvarsmanna sjúkrahússins sem staðhæfa að þá fjármuni þurfi þeir að fá til að geta haldið rekstri sjúkrahússins í viðunandi horfi. Við leggjum til viðbótarfjármagn til Vegagerðarinnar, bæði til viðhalds og framkvæmda upp á 1,4 milljarða, hygg ég að það sé, og við viljum standa vörð um Ríkisútvarpið. Við höfum ekki í öllum tilvikum lagt fram breytingartillögur og nefni ég þar lögregluna sérstaklega en vísa til þeirrar samstöðu sem myndaðist í þinginu og var margrómuð hér undir lok síðasta kjörtímabils.

Ég endurtek að við þá umræðu sagði ég alltaf: Já, við skulum fylkja okkur um þetta baráttumarkmið, en við skulum horfa til þess að þetta kann að taka einhvern tíma, við þurfum að stíga þessi skref markvisst. Það er ekki verið að gera, ekki sem skyldi. Við ættum að setja niður áætlun um stigvaxandi framlag til löggæslunnar þar sem markmiðið væri að ná því fyrst að rétta af hallann sem varð til í kjölfar hrunsins og nam tæpum 3 milljörðum kr. og síðan þarf að bæta um betur vegna þess að við þurfum að búa við góða löggæslu í landinu, við þurfum að fá gott fólk, við þurfum að fá vel menntaða lögreglumenn til starfa. Þeir eru vissulega margir að störfum, en við þurfum að hlúa miklu betur að löggæslunni í landinu en við höfum gert um nokkurt skeið. Þar er ég ekki að saka þessa ríkisstjórn sérstaklega um neina stórglæpi í þeim efnum. Ég er að horfa til þróunar sem varð sérstaklega eftir hrunið á því sviði eins og svo mörgum öðrum þar sem við þurfum að taka til hendinni og rétta málin af. Ég mun ekki láta mitt eftir liggja í því að styðja slíkar góðar tillögur komi þær til frá stjórnarmeirihlutanum.