145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:13]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir ræðu hans. Hún var yfirgripsmikil og góð og er ég að mestu leyti sammála þingmanninum í því sem hann fór yfir, að mestu leyti en ekki öllu. Hann talaði um heilbrigðismálin og Landspítalann og að það vanti að mati einhverra innan Landspítalans enn þá fé til rekstursins. Ég minni á að gert var samkomulag hér um að setja 30 milljónir inn í fjárlögin til að fara í sameiginlega úttekt og skoðun á spítalanum, sem er mikið gleðiefni.

Mig langar aðeins til að spyrja þingmanninn í framhaldi af þessu, af því að hann talaði um að 500 aðilar innan spítalans hefðu misst vinnuna á síðasta kjörtímabili eða eftir hrunið og þingmaðurinn var heilbrigðisráðherra í nýrri ríkisstjórn eftir kosningarnar 2009: Getur hv. þingmaður farið í örfáum orðum yfir það hvaða verkefnum hann stóð frammi fyrir þegar niðurskurðarkröfurnar (Forseti hringir.) voru gerðar sem þessi ríkisstjórn hefur verið að bæta?