145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:15]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í forgangsröðun okkar gagnvart sjúkrahúsunum og heilbrigðisgeiranum þá settum við eitt í öndvegi og það var lyfjakostnaður. Við breyttum reglugerðum og regluverkinu sem snýr að lyfjamálunum. Ég vildi ég hefði þessar tölur fyrir framan mig en þar var umtalsverður ávinningur sem við höfðum með breyttu fyrirkomulagi án þess að það væri á nokkurn hátt gengið á hlut sjúklinga. Þar liggja náttúrlega stóru tölurnar og sama kemur nú til sögunnar þegar við erum að fá þennan samning við erlent lyfjafyrirtæki um stórfellda niðurfellingu á kostnaði við lifrarbólgu C lyf, sem ég tel vera sögulegan atburð. Það kom mér á óvart (Forseti hringir.) hve fjölmiðlar gerðu lítið úr þeim þætti þegar frá því var greint, því að þetta eru gríðarlegir (Forseti hringir.) hagsmunir þarna á ferðinni sem eru náttúrlega óháðir ákvörðunum sem teknar eru í þessum sal.