145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:17]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þegar samningur um lifrarbólgu C var gerður skrifaði ég á heimasíðu mína pistil undir fyrirsögninni Til hamingju Ísland, vegna þess að þetta er nokkuð sem okkur öllum hlotnast. Þarna er gríðarlegur ávinningur fyrir það fólk náttúrlega sem er haldið þessum sjúkdómi, það er nefnilega stóra málið. En miklir peningar koma inn, auðvitað er það gott að heilbrigðisráðuneytið og hæstv. heilbrigðisráðherra hafi gengið í þessa samningsgerð, en þetta er óháð fjárveitingum frá Alþingi.

Ég verð að segja það að við eigum að horfa núna til þess, þeirrar staðreyndar, að það skortir 3 milljarða að mati færustu sérfræðinga á Landspítalanum, sem ég trúi, til að hægt sé að halda rekstri sjúkrahússins í viðunandi horfi. Alveg óháð því sem áður gerðist eftir mesta efnahagshrun Íslandssögunnar og þær hörmungar sem (Forseti hringir.) dundu yfir okkur þá, þá er veruleikinn þessi að við erum á uppleið, við erum að skila afgangi á fjárlögum og við eigum að láta aukið fjármagn renna til Landspítalans, þessarar (Forseti hringir.) kjölfestu í íslensku heilbrigðiskerfi.