145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:33]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að við höfum ekki efni á öðru en að leggja meira í heilbrigðisþjónustuna í landinu. Við höfum efni á að gera það. Þá langar mig til að horfa til tekjuhliðarinnar líka og vannýttra tekjustofna. Ég horfi til veiðigjaldsins og ég horfi til auðlindanna sem gætu gefið miklu meiri fjármuni í sameiginlega sjóði en gert er. Þetta var eitt af því fyrsta sem núverandi ríkisstjórn skar niður um milljarða. Við höfum orðið þarna af tugum milljarða. (Gripið fram í.) Hér er til dæmis verið að leggja á orkuskatt. Ég veit að það kemur til sögunnar annars konar skattheimta á því sviði, en þarna erum við að verða af miklum peningum líka. Þannig að við höfum möguleikana á að veita fjármuni frá sameiginlegum auðlindum okkar til þess að gera heilbrigðisþjónustuna í landinu í stakk búna (Forseti hringir.) að sinna verkefnum sínum á þann hátt sem ég held að við viljum öll. (Forseti hringir.)

Við skulum ekki gleyma því þegar horft er til hrunsins, hins skelfilega hruns, að í aðdraganda þess hafði verið skorið niður, (Forseti hringir.) jafnvel á velsældarárunum, til Landspítalans og heilbrigðisþjónustunnar og rekstrargeta hennar skert verulega. Við megum ekki gleyma því.