145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:47]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það var samstaða um það á Alþingi að breyta fundarsköpum Alþingis þannig að Alþingi kæmi saman annan þriðjudag í september til að auðvelda afgreiðslu fjárlaga. En það sem gerðist var að 2. umr. hefur ítrekað verið frestað og fara af því mjög margar og misfyndnar gróusögur hvernig ágreiningurinn í stjórnarmeirihlutanum tafði þessa afgreiðslu. Nú er málið komið til 2. umr. og það eru margir sem vilja tjá sig. Við í Samfylkingunni styðjum það að hér sé fundað fram undir miðnætti en við styðjum það ekki að fundað sé að nóttu til. Það er engin ástæða til, það er ekkert sem þarf að afgreiða í þinginu nema fjárlagafrumvarpið og tekjufrumvarpið og við höfum nægan tíma til þess. Það eru nokkrir dagar fram undan sem við getum gefið okkur í þessa umræðu. (Forseti hringir.) Það er ekkert sem hastar. Höldum vel á spöðunum en gefum okkur nú það sjálfum og sýnum fjárlögunum þá virðingu að við séum sæmilega sofin þegar við erum að ræða þau.