145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:54]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með þeim sem hér hafa talað. Við veigrum okkur ekki við því að standa hér og tala. Við óskum hins vegar eftir því að fá að vita hvenær menn ætla að ljúka umræðunni. Þetta er ótrúlega hallærislegt. Þetta er einhvern veginn eins og strákurinn á skólalóðinni sem segir: Nanana, bú, bú, ég veit hvenær við klárum en ekki þið — og reynir að halda okkur á tánum yfir einhverju. Þetta er svo púkalegt. Þetta er stemning sem á ekkert að vera á Alþingi Íslendinga. Við eigum að taka hlutina alvarlega, við eigum að setja okkur skýra ramma og við eigum að geta talað um það hvenær við klárum. (Gripið fram í.) Þó að það verði kl. tvö eða kl. þrjú, segjum það bara og ákveðum það.

Virðulegi forseti. Það er nefnilega rétt sem hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir segir, að það sem gerir þetta starf óaðlaðandi fyrir þá sem hugsa til þess að fara í pólitík (Forseti hringir.) sé ófyrirsjáanleikinn. Við getum unnið lengi, við getum unnið mikið (Forseti hringir.) en við verðum að fá að sjá eitthvað fyrir. Sumar okkar eigum jafnvel karla heima sem við erum (Forseti hringir.) dálítið skotnar í og viljum gera plön með. [Hlátur í þingsal.]