145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:56]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Forseti. Bara svona til að greiða úr stöðunni sem við erum í, þá er enginn að tala um að við eigum ekki að halda fundinum áfram. Verið er að spyrja: Hvenær áformar forseti að ljúka fundinum? Er þetta eitthvað flókið? (Gripið fram í: Þarftu að spyrja marga?) Þangað til við fáum svar. Það er nefnilega þannig í mannlegum samskiptum að jafnaði að fólk spyr og þá kemur jafnvel svar og þegar mjög margir eru búnir að spyrja þá er það mjög gjarnan þannig að viðkomandi lætur svo lítið að svara. Þess vegna mundi ég álykta að það væri komið að því að forseti svaraði þessari spurningu þegar hún hefur hrannast hér upp í mismunandi útgáfum frá mismunandi þingmönnum.

Þetta er fyrst og fremst mjög asnalegt og mjög gamaldags. Um hvað snýst þetta eiginlega? Snýst þetta um að forseti eða stjórnarmeirihlutinn sé að sýna vald sitt eða eitthvað slíkt? Er það það sem þetta snýst um? Áttar forseti og stjórnarmeirihlutinn sig kannski á því að það er ekki verið að spara tíma með þessu vegna þess að stjórnarandstaðan er alveg skýr hvað það varðar að þessi (Forseti hringir.) nálgun og þessi meðferð á valdi er gamaldags, (Forseti hringir.) hún er úr sér gengin og hún er ekki eitthvað sem (Forseti hringir.) við erum til í að láta yfir okkur ganga. Það bara er ekki þannig. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)