145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:02]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hér eru margir á mælendaskrá. Flestir eru það stjórnarandstæðingar, (Gripið fram í.) allflestir þeir stjórnarliðar sem ætluðu að tala eru — (Gripið fram í.) Virðulegi forseti. Það er svo mikill órói í salnum. — Allflestir þeir stjórnarþingmenn sem ætluðu að tala eru búnir að tala en þó eru einhverjir eftir. Menn tala um gamaldags og úr sér gengin vinnubrögð. Ég ætla auðvitað engum hér að stjórnarandstaðan sé í einhvers konar tafaleikjum eða öðru slíku. Það eru margir á mælendaskrá og við þurfum að leyfa því fólki að tala. Ég hvet til þess að forseti haldi þessum fundi áfram þannig að við getum hlýtt á þær fjölmörgu ræður sem eru fram undan. Þær hafa verið athyglisverðar og hér hafa verið athyglisverð skoðanaskipti í dag. Ég vonast til að þau verði áfram og ég hvet forseta sem situr þungur en þó léttur á brún til að halda þessum fundi áfram eins lengi og hægt er. (Gripið fram í.)