145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:04]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mér sýnist að það séum einkum við sem hér höfum lengst staðið á vellinum sem höfum mest úthald. Ég verð að viðurkenna eftir að hafa hlýtt á ræður hv. þingmanna að mér sýnist að þeir sem yngri eru séu ekki eins kvikir og hreyfi sig jafn hratt og lipurlega og við sumir hinna sem höfum verið hérna kannski lengur en við kærum okkur um að rifja upp á þessari kvöldstund.

Hæstv. forseti þekkir viðhorf mín til þingstarfa, ég uni mér hér vel og á engum stað betur en hér, þó að jafnvel geti komið fyrir að ég gæti sagt hið sama og hv. þm. Björt Ólafsdóttir, að það væri beðið eftir mér heima, þá gerist það allt of sjaldan hins vegar. [Hlátur í þingsal.]

En ég tek undir með hv. þingmönnum sem hafa bent á að mikil ókyrrð er í salnum og órói. Það sem skapar óvissu kveikir óeirð í fólki og ég fer ekki fram á neitt annað við hæstv. forseta en að hann kunngeri hvort hann hyggist gera uppskátt um hvenær fundi á að ljúka síðar á þessari nóttu.