145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:46]
Horfa

Karl Garðarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Val Gíslasyni fyrir að mörgu leyti ágæta ræðu. Honum var tíðrætt um lygasögur Münchhausens og vitnaði óspart í hina ýmsu forstjóra ríkisstofnana sem spretta yfirleitt upp á síðustu tveimur mánuðum hvers árs og krefjast meiri penings. Það er ekkert nýtt. Það hefur gerst eins lengi og elstu menn muna. Hann ræddi sérstaklega um framlög til heilbrigðismála og gaf þar í skyn að þessi ríkisstjórn stæði sig engan veginn hvað það varðar.

Það er rétt að nefna að á síðustu þremur árum hafa framlög til Landspítalans aukist um 30,1%, til sjúkrahúsa um 34,6%, til heilsugæslunnar um 27,2%. Breyting á framlögum til heilbrigðismála á síðustu þremur árum nemur 34 milljörðum kr. Ég fullyrði það að hvergi, nánast hvergi á byggðu bóli hafa framlög til heilbrigðismála aukist jafn mikið á síðustu þremur árum og á Íslandi.

Ætlar hv. þm. Björn Valur Gíslason að þræta fyrir þær tölur? Eru þær rangar? Hvað vill hann að við bætum mikið í til heilbrigðismála þannig að hann verði ánægður? Þótt við bætum við 3 milljörðum eins og beðið er um núna mun það ekki duga til að halda kerfinu gangandi miðað við það sem forstjóri Landspítala segir. Það munu koma fram kröfur um aðra 3 milljarða og síðan aðra 3 milljarða. Við vitum þetta og þetta vita allir.

Hvernig væri nú að menn fari að horfa á tölurnar og hætti að þræta fyrir það sem liggur fyrir, að við höfum aukið framlög til Landspítala um 30% á þremur árum. Ætlar hv. þingmaður að þræta fyrir það?