145. löggjafarþing — 50. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:02]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Auðvitað erum við sammála um þetta. Ég held að það sé markmið allra þeirra sem eru hér inni, hvort sem þeir sitja í fjárlaganefnd eða í öðrum nefndum þingsins, í ríkisstjórn eða ekki, styðja ríkisstjórnina eða ekki, að ná tökum á ríkisfjármálum eftir hrunið.

Það er afar mikilvægt að gera það og hefur alltaf verið okkar helsta markmið, alveg frá upphafi þegar við fengum þetta allt í hausinn haustið 2008. Þannig var unnið fyrstu fjögur árin eftir hrun, með gríðarlegum viðsnúningi sem ég fór yfir áðan, tugi milljarða á hverju einasta ári fram að 2013 þegar ríkissjóði var skilað á núlli.

Ég er algjörlega ósammála hv. þingmanni um að þetta sé gott fjárlagafrumvarp sem skilar á núlli þriðja árið í röð. Það er ekki boðlegt og ég ætla ekki einu sinni að reyna að hugsa þær ræður sem hefðu verið haldnar hér ef það hefði verið vinstri stjórn sem hefði lagt fram fjárlög á núlli þriðja árið í röð, eftir það sem á undan er gengið. (Gripið fram í.) Það er ekki boðlegt. Við eigum að geta gert miklu betur en verið er að leggja til að verði gert, miklu betur.

Ef það er svona erfitt að vinna við þetta, eins og forustufólk fjárlaganefndar hefur sagt, pressan sé svo mikil, þetta sé svo erfitt, þetta sé svo flókið, þá eiga þau að láta einhverjum öðrum það eftir að vinna þessa vinnu, því að það er vel hægt að gera það. Það sýndum við svo ekki var um villst á síðasta kjörtímabili. Það var ekki létt verk en það var hægt (Gripið fram í.) og það er allt hægt og við réðum við það og skiluðum ríkissjóði á núllinu á árinu 2013. (Forseti hringir.) Við erum enn á sama stað og það eru vonbrigði. Ég held að hv. þingmaður hljóti að vera mér sammála um að það eru vonbrigði að vera ekki komin lengra áfram.