145. löggjafarþing — 50. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:07]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég veit að lögum samkvæmt gilda ekki hvíldarákvæði vinnulöggjafarinnar um alþingismenn. Það væri samt góður siður að Alþingi sýndi þeirri löggjöf þá virðingu að miða störf sín við hana. Fundir hefjast snemma í fyrramálið. Ég fer til dæmis á fund kl. 8.30. Nú er komið fram yfir miðnætti. Ég er samviskusöm kona og leitast við að vera viðstödd þingfundi meðan þeir standa. Hvað á það þá eiginlega að þýða að geta ekki upplýst þingmann um það hversu lengi hann megi búast við að standa vaktina inn í nóttina? Þetta er einföld spurning sett fram í fullri einlægni af samviskusemi og ég trúi því ekki að hæstv. forseti ætli að taka þátt í þessu heimskulega leikriti karlanna sem hafa setið hér á forsetastóli í kvöld. Þeir eru allir gamlir í hettunni, jæja, ekki allir, sumir, en ætlar forseti að taka þátt í því heimskulega leikriti að svara ekki þingmönnum spurningunni um hversu lengi eigi að halda áfram?

Ég vek athygli á því að í hópi þingmanna er meðal annars móðir tvíbura sem hún hefur á brjósti. Hún fær ekki upplýsingar um það hvort eða hvenær hún eigi að fara heim til að mjólka börnunum sínum. Tímarnir hafa breyst. Það eru komnar konur inn á Alþingi, það er komin kona á forsetastól og þetta gamla, heimskulega leikrit karlanna frá fornöld og sautján hundruð og súrkál er úr sögunni, að vera með þagmælskustörukeppni (Forseti hringir.) framan í stjórnarandstöðuna sem er að reyna að vinna sína vinnu.