145. löggjafarþing — 50. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:09]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Þessir vondu karlar eru víða og ég hugsa að það væri auðveldara fyrir forseta að svara ítrekuðum spurningum til forseta um hvenær fundinum ljúki ef stjórnarandstaðan gæti gefið okkur einhverja hugmynd um það hvað hún ætlaði að tala lengi um þetta mál yfir höfuð.

Hvar er leikritið? (Gripið fram í.) Hvað ætlaði stjórnarandstaðan að taka mikinn tíma í að ræða fjárlögin? (Gripið fram í: Eins og þarf.) Eins og þarf, já. (Gripið fram í: Já.) Þess vegna svarar forsetinn: Þingfundur stendur eins lengi og þarf. Það er nefnilega ástæðan. (Gripið fram í.)

Ég var einmitt að hugsa til þessa þegar ég hlustaði á umræðurnar í breska þinginu þar sem þau ætluðu í stríð. Stjórnarandstaðan vildi fá að tala í tvo daga. (Forseti hringir.) Henni var gefinn einn dagur og þau voru að fara í stríð. Stjórnarandstaðan hér getur ekki einu sinni gefið upp hvað hún ætlar að tala lengi um fjárlögin. (Gripið fram í.) (Gripið fram í: En stjórnarliðar?)