145. löggjafarþing — 50. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:15]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er sérstakt gleðiefni að forseti sé full vinnugleði en það er samt áhugavert fyrir okkur hin að vita hversu lengi þessi þingfundur á að standa.

Svo vil ég beina þeirri ósk til hæstv. forseta að hún upplýsi hv. þm. Brynjar Níelsson um að við á Alþingi förum með fjárveitingavaldið og það er ekki óeðlilegt að við viljum ræða fjárlögin. Þriðjungur ræðumanna á fyrirliggjandi mælendaskrá er stjórnarliðar og við í stjórnarandstöðunni hljótum að vilja líka tjá okkur um þetta plagg. Þó að meiri hlutinn virðist oft líta á það sem hálfgert formsatriði að ryðja sér yfir vilja minni hlutans í þinginu höfum við málfrelsi. Mælendaskráin er skýr varðandi fyrirætlanir okkar. Þær eru bara að fá að tjá okkur hér um fjárlögin og það er rétt (Forseti hringir.) að hv. þingmaður verði upplýstur um bæði erindi þingmanna og málfrelsi.