145. löggjafarþing — 50. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:23]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég er kannski ekki jafn sannfærður eins og margir þingmenn um skaðsemi langra þingfunda fyrir fjölskyldu og gott samband enda hef ég löngum verið þeirrar skoðunar að gagnkvæmar fjarvistir styrki stabílt samband. En mér er umhugað um líðan og heilsu annarra sem starfa með mér og ég sé að margir eru óhressir með þetta. Ég er það í sjálfu sér ekki enn þá, en ég held að það mundi hjálpa öllum, líka mér, ef menn vissu sína nánustu framtíð og það væri gott að vita hversu lengi hæstv. forseti hyggst halda hér áfram.

Hins vegar finnst mér að það þurfi að færa hingað í salinn starfandi formann þingflokks sjálfstæðismanna sem kemur hingað og hendir sprengjum inn í þingsal og flýr svo af hólmi. Ég lýsi eftir hv. þm. Brynjari Níelssyni. Hann kemur hér og hótar þingheimi með því að hér standi þingfundur eins lengi og stjórnarandstaðan hefur þrek til að tala. Það setur meira að segja mig í uppnám. (Forseti hringir.) Ég hafði ekki hugsað mér endilega að taka þátt í þessari umræðu með formlegri ræðu og ég hef ekki skráð mig enn þá á mælendaskrá. En það kemur að því að ég geri það (Forseti hringir.) ef hv. þm. Brynjar Níelsson tekur með þessum hætti nánast yfir stjórn fundarins og fer hér að dósera og delera og gefa einhverjar fyrirskipanir um (Forseti hringir.) að hér eigi fundur að standa jafnvel óslitið fram í næstu viku.