145. löggjafarþing — 50. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:31]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Mér finnst ekkert sérstaklega sniðugt að Alþingi sé að verða skemmtiefni með neikvæðum formerkjum. Þetta er ekki nein skemmtidagskrá, hygg ég, fyrir þjóðina. Við erum að ræða hér fjárlög íslenska ríkisins fyrir næsta ár og farið hefur fram ágæt umræða um það. Það er löng mælendaskrá og ég held að flestir í stjórnarandstöðunni vilji nýta ræðutíma sinn, alla vega hafa þeir sem talað hafa gert það og ég hef ekki orðið var við annað en að þetta séu málefnalegar umræður.

Það hefði verið hægt að flýta umræðunum með því að upplýsa okkur í dag um hve lengi þingfundur ætti að standa. Við hefðum þá getað samþykkt það eða mótmælt því eftir atvikum. Mér finnst að við eigum að reyna að fara að taka þátt í þessari umræðu eins og fullorðið fólk. (Forseti hringir.) Verið er að gera kröfu til þess, óska eftir því að við fáum að vita hversu lengi þessi þingfundur á að standa. Eigum við ekki að fá svar við því? (Forseti hringir.) Við munum halda þessu áfram að spyrja út í það svo lengi sem við fáum ekki svar við þeirri spurningu. (Forseti hringir.) En þetta er að þróast út í hálfgerðan skrípaleik og ég held að það væri öllum greiði gerður með því núna að slíta fundi þegar í stað. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)