145. löggjafarþing — 50. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:32]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það er nú svo furðuleg staða hérna að við sitjum undir því, stjórnarandstaðan, að eiga að svara hversu lengi við ætlum að tala. Ég ætlaði mér að tala um velferðarhluta fjárlaganna, sem er nú um það bil helmingurinn af fjárlögunum, og halda mína fyrstu ræðu. Ég er nr. 17 eða 18 á mælendaskrá og á þeirri mælendaskrá er þriðjungur ræðumanna stjórnarliðar. Þingmenn eins og ég vilja nýta málfrelsi sitt hér til að fara yfir skoðun sína og sjónarmið og það fjárveitingavald sem við förum með. (Gripið fram í.)

Það virðist vera að ekki sé alveg á hreinu hverjir stjórna þingflokkum í þessu þingi, nú þegar við erum að tala inn í aðfararnótt fimmtudags. Það er kannski ástæða til að þingforseti fari og tékki á liðsskipan og fari yfir það hverjir stjórna hér ferðinni eða hvort þetta er bara allt eintóm della.