145. löggjafarþing — 50. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:35]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mig langar að byrja á því að taka fram að ég óska ekki eftir að verða sett á mælendaskrá að nýju þrátt fyrir þær umræður sem átt hafa sér stað að framan og frábið mér að einhverjir aðrir hér í þinghúsinu taki sér það bessaleyfi að setja mig aftur á mælendaskrá. Og fyrst ég er að gefa hér yfirlýsingar lýsi ég því hér með yfir að ég er heldur ekki þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, ekki enn þá.

Við ræðum hér fjárlagafrumvarpið. Í umræðunni hefur verið farið um víðan völl, sem er eðlilegt enda erum við hér að ræða stærsta mál þingsins á þessu missiri. Það er mjög ánægjulegt að sjá að við leggjum hér fram fjárlög með afgangi, það er mikilvægt, þriðja árið í röð er það staðreynd. Hvers vegna er það mikilvægt? Vegna þess að það sýnir okkur það að við erum á réttri leið og við erum að ná tökum á ríkisrekstrinum. Það er gríðarlega ánægjulegt og vekur athygli, ekki bara hér á landi heldur einnig á erlendum vettvangi. Menn voru ekki ósparir á að koma því hér á framfæri á síðasta kjörtímabili og er einnig rétt að halda því til haga hér.

Ég hefði áhuga á því að ræða meira um hagræðingu í ríkisrekstri. Ég sat í hagræðingarhópi ríkisstjórnarinnar og við lögðum fram tillögur okkar á sínum tíma. Ég tek eftir því að meiri hluti fjárlaganefndar fer aðeins yfir þær tillögur í nefndaráliti sínu við 2. umr. og það er vel. Markmiðið með vinnu okkar var að styrkja markmið ríkisstjórnarinnar um hallalaus fjárlög og nú er búið að ná því. Þá var það markmið að gera ríkisbúskapinn sjálfbæran til lengri tíma og var lagt til að horfa til núverandi skuldsetningar og aukningar útgjalda m.a. vegna breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar.

Í þriðja lagi var markmiðið það að bæta hagkvæmni og árangur í ríkisrekstri þannig að hægt væri að veita góða og öfluga þjónustu í samræmi við þarfir þjóðarinnar og síðan að gera rekstur ríkisins skilvirkari og auka framleiðni.

Við lögðum fram 110 tillögur í þessum hópi. Það er misjafnt í hvaða stöðu þær eru og er farið aðeins yfir tölfræðina í því efni í nefndaráliti meiri hlutans. En sem dæmi um það sem komið hefur í gegnum mína nefnd og er á sviði allsherjar- og menntamálanefndar má nefna sameiningu sýslumannsembætta og lögregluembætta og aðskilnað þeirra embætta með það að markmiði að styrkja embættin og veita betri þjónustu.

Það er mikilvægt að við sofnum aldrei á verðinum og gætum þess að skattfé almennings sé nýtt á ábyrgan hátt. Ég fagna því sérstaklega að fjárlaganefnd fjallar ítarlega um þessi mál í nefndaráliti sínu.

Eitt af þeim verkefnum sem ég hef verið að skoða er með hvaða hætti við getum hagrætt í ríkisrekstri með því að nýta frekar og í meira mæli rafræna stjórnsýslu. Ýmsar þjóðir hafa sett sér það markmið og hafa þá stefnu að ná meiri hluta þeirrar hagræðingar sem lagt er til að þær þjóðir fari í, t.d. Danmörk, með því að auka rafræna stjórnsýslu og um leið að auka aðgengi almennings að hinu opinbera og einfalda alla ferla við umsóknir og afgreiðslu mála.

Ég stýrði vinnuhópi á vegum innanríkisráðherra um þessi mál og vonast svo sannarlega til þess að á næstu árum munum við sjá þess stað að við stefnum að því að ná lengra á því sviði. Aðeins er talað um það í litlu bókinni, sem svo er oft kölluð, með fjárlagafrumvarpinu á bls. 16 þar sem er kafli sem fjallar um opinber innkaup og rafræna þjónustu. Þar er farið yfir að þessi innleiðing mundi taka nokkur ár, en við byrjum á því að innleiða sameiginleg innkaup ríkisstofnana. Þar segir að með því að nýta upplýsingatæknina í meira mæli en við gerum núna batni þjónustan við almenning og fyrirtæki, hagræðing í uppbyggingu aukist og í rekstri opinberra þjónustukerfa. Það er alveg ljóst að samfélagið allt mun bera hagnað af slíkum verkefnum og við sjáum að hagræðingin gæti orðið umtalsverð sem og öll þjónusta við almenning og fyrirtæki. Þetta er einföld hugmynd en við þurfum að útfæra hana. Það mun kosta fjármagn að hefja þetta verkefni vegna þess að við þurfum að styrkja þau kerfi sem stjórnsýslan býr við í dag, það er alveg ljóst. En ég vonast svo sannarlega til þess að við sjáum þess stað á þessu kjörtímabili að við stígum skrefið áfram í þessu máli.

Í umræðunni hefur verið farið yfir mjög mörg atriði og í breytingartillögum meiri hlutans eru nokkrar tillögur sem mig langar sérstaklega að fjalla um er varða þann málaflokk sem er á mínu málefnasviði í þinginu og heyrir undir allsherjarnefnd. Hér er um að ræða tillögu um að bæta 400 millj. kr. til löggæslumálefna. Það er gríðarlega mikilvægt að við styrkjum þessa grunnstoð þjóðarinnar, en við stigum það skref í fjárlögum árið 2014 að bæta 500 millj. kr. til löggæslumála á Íslandi. Nú erum við að stíga næsta skref með því að bæta 400 millj. kr. ofan á það.

Það eru fjölmörg verkefni sem blasa við okkur. Með fjölgun ferðamanna er aukið álag á þau embætti sem stýra og veita þjónustu á þeim svæðum þar sem megnið af ferðamönnunum fer um. Það er brýnt að bregðast við þeirri miklu breytingu sem orðið hefur á þjónustuþörfinni á þeim svæðum. Jafnframt er greinilega brýnt að auka við fjármagn í kynferðisbrotarannsóknum sem og að halda betur utan mál sem varða heimilisofbeldi, en við þekkjum með hvaða hætti lögreglustjórar reyna nú að nálgast það mikilvæga verkefni. Það er mikilvægt að þess sjái stað að áherslan á breytingar í þessum málaflokkum komi fram vegna þess að hægt er að gera miklu betur og við eigum að gera betur. Það verður gert með því að stytta þann tíma sem málin eru í kerfinu, sem leiðir þá af sér að betur er haldið utan um skýrslutökur og minni líkur eru á því að mál ónýtist vegna þess að vitni og aðilar máls eru búnir að gleyma málsatvikum því að langur tími er liðinn frá því að meint brot átti sér stað.

Það er jafnframt mikilvægt að þetta gangi í gegnum allt kerfið og það taki einnig til þeirra sem fara með ákæruvaldið og síðan dómstólana. Þá er gríðarlega mikilvægt að við séum ekki feimin að ræða það að auka og bæta í prógrammið varðandi símenntun og endurmenntun dómara. Við getum horft til ýmissa fyrirmynda þar, m.a. til Svíþjóðar sem er með mikið öflugra prógramm en við í þeim málaflokki. Það er framtíðin og það sem koma skal.

Ég veit að umræðan í samfélaginu hefur snúist mikið um hvort nauðsynlegt sé að gera lagabreytingar, hvort lagaumhverfið í þessum málum, og þá sérstaklega kynferðisbrotamálunum, sé nægilega sterkt hjá okkur. Ég er á þeirri skoðun að að sjálfsögðu getum við skoðað það, en ég tel að það sé ekki meginviðfangsefnið, heldur það að breyta viðhorfum og áherslum. Ég fagna því sérstaklega að innanríkisráðherra hefur nú stofnað hóp sem ætlar sér að fara yfir þessi mál. Vonandi mun sá hópur leggja fram breytingar til úrbóta vegna þess að það er ýmislegt hægt að gera, eins og t.d. að skoða þann möguleika að taka upp svokallað samtal á milli aðila máls. Það er félagslegt úrræði sem verið er að reyna í Danmörku og Noregi, frekar en Svíþjóð, þar sem aðilar máls, þ.e. meintur gerandi og brotaþoli koma saman í samtal sem stýrt er af þriðja aðila til að fara yfir hvað gerðist og ræða atburðinn.

Útlendingamálin og málefni bæði hælisleitenda og flóttamanna sem og innflytjenda hafa einnig verið mikið í umræðunni á þessu ári. Það er gott vegna þess að sú umræða er gríðarlega mikilvæg. Það var mjög ánægjulegt að sjá þá áherslu og þá auknu fjármuni sem ríkisstjórnin ákvað að setja í þennan málaflokk. Ég vonast einnig til þess að við sjáum á þessum vetri nýtt frumvarp um útlendingamálin koma hingað í þingið og verða að lögum áður en þetta þing er úti.

Eins og menn þekkja er þverpólitísk þingmannanefnd búin að skila af sér drögum að frumvarpi til ráðherra og ég vona að það verði lagt fram fljótlega og að við í allsherjar- og menntamálanefnd getum hafist handa við að vinna að þeim málum. Sú mikla breyting og fjölgun hælisleitenda og fólks á flótta um alla Evrópu leiðir auðvitað af sér breytingar og kröfu um betri þjónustu. Við erum með kerfi hér heima sem er í grunninn ágætt en að sjálfsögðu er auðvitað þörf á meiri fjármunum eftir því sem verkefnin verða fleiri og þyngri vegna þess að við þurfum fleira fólk til að geta afgreitt mál. Það er gott að sjá þess stað í frumvarpinu að verið er að koma til móts við þá miklu og brýnu þörf. Meðal annars er hér gert ráð fyrir að Útlendingastofnun fái viðbótarfjármagn til að fjölga stöðum og gert er ráð fyrir því að fjölgun stöðugilda hjá Útlendingastofnun verði um tíu auk starfstengds kostnaðar. Það er gott.

Við þekkjum auðvitað umræðuna um hælisleitendurna. Ríkisstjórnarmeirihlutinn bætir jafnframt 87 millj. kr. í þann lið. Það er vegna þess að þegar hælisleitendum fjölgar þarf meira fjármagn til að sinna þeirri þjónustu sem okkur ber að veita þeim hópi. Það er auðvitað erfitt að áætla fjárhæðir í þann málaflokk vegna þess að við vitum ekki hversu margar umsóknir munu koma fram, en þetta er áætlun sem gerð er á grundvelli þeirra forsendna sem liggja fyrir í dag. Markmiðið með frumvarpinu sem þingmannanefndin skilaði af sér varðandi þann hlut þess máls er varðar hælismálin er að gera kerfið liðugra, einfaldara, skilvirkara og mannúðlegra og ég vonast svo sannarlega til að okkur takist að koma því máli hér í gegn.

Það er ekki hægt að halda ræðu um fjárlögin án þess að minnast aðeins á hið ágæta Suðurkjördæmi, en þar eru ýmis brýn mál. Það sem allir sveitarstjórnarmenn töluðu um sem komu fyrir þingnefndir Alþingis og höfðu samband við okkur af Suðurlandi, var ART-verkefnið. Ljóst er að fjárlaganefnd hefur fundið fjármagn til að veita til þess verkefnis og það er gríðarlega mikilvægt. Það er gott að við getum framlengt líftíma þess verkefnis, en ráðherra félagsmála þarf að koma þessum málum í fastari farveg þannig að við þurfum ekki á hverju ári að taka ákvarðanir aðeins eitt ár fram í tímann varðandi það. Það er mikilvægt að viðbætur komi í hafnir og flugvelli vegna þess að við þekkjum það að síðan í hruni hafa fjárframlög til uppbyggingar innviða verið af mjög skornum skammti. Auðvitað þyrfti að gera betur en við gerum hér en þetta er samt ágætisbyrjun. Það er alveg ljóst að við þurfum að horfast í augu við mikla viðhaldsþörf varðandi vegakerfið okkar.

Virðulegi forseti. Í þessum fjárlögum eru bætur almannatrygginga hækkaðar verulega. Það er alveg ljóst að þær breytingar sem við leggjum til hér, bæði í frumvarpinu sjálfu og eins þeim breytingum sem nefndin leggur fram, hafa í för með sér verulegar hækkanir á almannatryggingabótum. Við þekkjum þá umræðu sem verið hefur í gangi undanfarna daga. Ég vil taka það fram að það var eitt af fyrstu verkum þessarar ríkisstjórnar að ráðast í að taka til baka þær skerðingar sem vinstri stjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna lögfesti árið 2009. Við gerðum þær breytingar í júlí 2013 að lífeyrissjóðstekjur mundu ekki skerða grunnlífeyri elli- og örorkulífeyrisþega. Jafnframt lögfestum við þá breytingu að frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega var hækkað úr 40 þús. kr. á mánuði í 110 þús. kr. á mánuði.

Þá gerðum við þá breytingu að við framlengdum hækkun á frítekjumarki vegna atvinnutekna örorkulífeyrisþega úr 27 þús. kr. í 110 þús. kr. Samkomulag um víxlverkun bóta almannatrygginga og lífeyrissjóða var framlengt. Skerðingarhlutfall tekjutrygginga var lækkað úr 45% í 38,35% og skerðingarhlutfall heimilisuppbótar var lækkað hlutfallslega jafnmikið. Þá kom til hækkun frítekjumarks vegna lífeyrissjóðstekna ellilífeyrisþega úr 10 þús. kr á mánuði í 27 þús. kr. á mánuði í þremur áföngum á árunum 2013–2015. Þessar miklu breytingar hafa auðvitað kostað fjárframlög úr ríkissjóði en ekki var umflúið að ráðast í að taka til baka þessar skerðingar, enda var það eitt af okkar helstu áhersluatriðum í síðustu kosningum.

Síðan er það fyrirkomulagið á hækkun til aldraðra og öryrkja á grundvelli 69. gr. almannatryggingalaga. Í þeirri grein kemur fram að bætur almannatrygginga skuli breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun en þó þannig að bætur hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Þannig hljóðar lagabókstafurinn og ég endurtek að þetta er 69. gr. laga um almannatryggingar. Það er munur á því að ræða um bætur eða laun. Fyrirkomulagið á hækkun bóta er ekki eins og fyrirkomulagið á hækkun launa.

Þegar laun hækka er það alla jafna gert á grundvelli kjarasamninga. Kjarasamningar eru gerðir þegar kjarasamningar eru lausir eða samkomulag næst. Þess vegna geta viðmiðunardagsetningar í kjarasamningum verið hvenær sem er ársins. En bætur eru ekki þannig. Þær hækka á hverju ári í tengslum við fjárlagavinnuna á grundvelli 69. gr. laga um almannatryggingar. Og það kemur fram í ræðum þeirra þingmanna sem fjölluðu um málið á þingi á sínum tíma að menn töldu þetta gríðarlega mikilvæga breytingu vegna þess að þetta ákvæði laganna tryggði það að bætur hækkuðu alltaf. Það tryggir að þó að ástandið sé þannig í samfélaginu að laun hækki ekki þá hækka bæturnar annaðhvort vegna launabreytinga eða á grundvelli verðlagshækkana. Ef það eru engar launabreytingar, engar hækkanir þá hækka bæturnar engu að síður. Það er ástæðan og það þótti mönnum á þeim tíma gríðarlega mikilvægt.

Ég ætla að vitna í ræðu hv. þáverandi þingmanns, Vilhjálms Egilssonar, sem þá var formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis. Hann sagði um greinina sem nú var til umfjöllunar á Alþingi, með leyfi forseta:

„Eins og málið stendur núna lít ég svo á að með þeirri formúlu sem er í greininni sé verið að leitast við að sjá til þess að kaupmáttur bóta lækki ekki þrátt fyrir að erfiðleikatímar komi í þjóðfélaginu. Það er að sjálfsögðu stefnt að því að hækka kaupmátt bótanna og að hækkunarferillinn endurspegli almenna launaþróun og almenna aukningu kaupmáttar í samfélaginu. Það er hins vegar mjög erfitt að finna einhverja algilda viðmiðun fyrir það, nákvæmlega eina vísitölu frekar en aðra hvernig þetta er gert en ég held að allir séu sammála um það að kjör og kaupmáttarþróun þeirra sem taka bætur þurfi að vera í almennu samhengi við það sem almennt gerist í þjóðfélaginu.“

Þetta hugsuðu menn þegar þeir settu þetta ákvæði í lögin.

Ég heyri það á stjórnarandstöðuþingmönnum að þeir telja rétt að hverfa frá þessu fyrirkomulagi eins og ég skil þá, og láta frekar bæturnar fylgja kjarasamningum að einhverju leyti. Ég átta mig ekki alveg á með hvaða hætti menn vilja þá fara inn í löggjöfina, eins og þetta hlýtur að þýða, að menn ætli að hverfa frá þessu fyrirkomulagi. Hvernig þá? spyr ég. Ætla menn þá að missa þá mikilvægu tryggingu bótaþega umfram launþega að bætur hækki þrátt fyrir það að laun hækki ekki? Ég hef ekki náð að átta mig á því í orðræðu félaga minna í stjórnarandstöðunni og væri ágætt að fá einhverja skýringu á því. Vegna þessarar greinar hækkuðu bætur um 3% um síðustu áramót. Laun hækkuðu ekki þá en bætur hækkuðu um 3%. Síðan gerðist það að margir kjarasamningar voru samþykktir á þessu ári og vegna þeirra breytinga sjáum við þá hækkun sem kemur núna inn í almannatryggingabæturnar upp á 9,7%, sem er mikil hækkun. Í fjárlagafrumvarpinu sjálfu var sú prósenta 9,4% en tekur nú þeirri breytingu að hún fer upp í 9,7%. Það þýðir að hækkun bótanna tekur gildi 1. janúar á næsta ári, eða um fjórum til fimm mánuðum áður en flestir aðrir launþegar fá sínar hækkanir. Þannig er samhengi hlutanna og ég tel rétt að halda því til haga hér. Ef þeir sem nú eru í minni hluta í þinginu telja að það sé betra að bætur fylgi alltaf einhverjum ákveðnum kjarasamningi, hvers vegna í ósköpunum var sú breyting þá ekki lögfest á síðasta kjörtímabili? Af hverju var það ekki gert á meðan menn höfðu vald til að breyta? (KaJúl: Það var gert …) Ef menn höfðu áhuga á því að koma þessu þannig fyrir að sú breyting yrði gerð til framtíðar, hvað var því til fyrirstöðu að gera hana meðan menn höfðu vald til þess? Ég lít svo á að þessar æfingar stjórnarandstöðunnar hér í þinginu séu einungis pólitískt sjónarspil með það að markmiði að upphefja stjórnarandstöðuna á einhvern hátt í augum fólksins úti í samfélaginu.

Virðulegi forseti. Ég tel ekki rétt að hafa fleiri orð um þetta frumvarp. Ég sé að hér eru margir sem eru á mælendaskrá og hafa óskað eftir því að taka til máls. Nóttin er ung og það verður eflaust fjörug umræða áfram.