145. löggjafarþing — 50. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:59]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður hóf mál sitt á því að segja að það væri ánægjulegt, gott ef ekki gríðarlega ánægjulegt að verið væri að leggja fram þriðju fjárlögin í röð með afgangi og klykkt út með því að segja að við værum á réttri leið, þ.e. við stjórnarmeirihlutinn. Ég mundi segja að einhvern tíma hefði verið sagt: Litlu verður Vöggur feginn. Er það sérlega ánægjulegt að fjárlagafrumvarp fyrir árið 2016, eftir fimm ára samfelldan hagvöxt, eigi að vera með 10 milljarða afgangi, kannski 1,3% af niðurstöðutölu fjárlaga, innan við 0,5% af vergri landsframleiðslu? Erum við á réttri leið?

Samkvæmt frumvörpum ríkisstjórnarinnar sjálfrar, fjáraukalagafrumvarp eftir 2. umr. og fjárlagafrumvarpið hér að fram komnum breytingartillögum, þá minnkar afgangurinn af ríkissjóði um 20 milljarða milli ára. Við færumst aftur nær núllinu, við erum að fara aftur á bak, afgangurinn er að minnka. Ef frá væru teknir óreglulegir liðir væri grunnrekstur ríkisins, uppgjör ríkissjóðs á rekstrargrunni að frátöldum óreglulegum liðum, í mínus og reyndar sennilega á fleiri árum en bara á því næsta. Er það góð frammistaða (Forseti hringir.) hjá ríkisstjórninni að hafa spólað algerlega og engum árangri náð í batnandi ríkisbúskap þau þrjú ár sem hún hefur farið með þessi mál?