145. löggjafarþing — 50. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[01:00]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er reyndar algerlega ósammála fyrrverandi fjármálaráðherra um að við séum ekki með tök á ríkisrekstrinum. Við erum að ná árangri. Ég man eftir því að meðan hv. þingmaður var ráðherra kvartaði hann stöðugt yfir því að við í stjórnarandstöðunni gætum ekki verið jákvæð og við gætum ekki séð þegar menn væru að gera eitthvað gott. Nú kalla ég eftir því að hv. þingmaður láti ljós sitt skína, minnist þessara orða sinna og gæti að því að tala ekki niður allt það sem vel er gert, líkt og verið er að gera tilraun til hér. Ég heyri ekki annað en stjórnarandstaðan sé helst með hugmyndir um aukin útgjöld, hefur reyndar birt ákveðna tillögu sem er til fyrirmyndar, að birta tillögur. Inn á þann lista vantar áherslumál minni hlutans sem ég hélt að væri til dæmis málefni Ríkisútvarpsins. En það er kannski eitthvað sem menn eru fallnir frá. (Gripið fram í: … koma frá ykkur.)