145. löggjafarþing — 50. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[01:03]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég misskil þetta ákvæði ekki á nokkurn hátt. Þetta ákvæði hefur verið framkvæmt á sama hátt alla tíð (Gripið fram í: Nei.) utan eins skiptis þegar hv. þingmaður sat í ríkisstjórn. Það var vegna þess að þá áttu sér stað kjarasamningar og ríkisstjórnin gaf út yfirlýsingu í tilefni þeirra kjarasamninga um að hækkanir varðandi kjarasamninganna mundu verða afturvirkar. Það var af því að þáverandi ríkisstjórn hafði farið inn í bæturnar með skerðingarnar og það var krafa allra þeirra aðila sem sátu undir þeim skerðingum og tóku þeim skerðingum að þær yrðu teknar til baka. Það vildi ríkisstjórn hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar ekki gera, hún vildi ekki éta þær skerðingar ofan í sig. Í staðinn var gripið til þess að fara þessa leið og nú erum við að nota það sem einhverja eftiráskýringu, að þetta sé andi laganna. Andinn hefur þá einungis verið til staðar í eitt skipti, bara í tíð vinstri stjórnarinnar. Það er mjög sérkennilegt.