145. löggjafarþing — 50. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[01:09]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er ekki flókið. 3% hækkunin sem aldraðir og öryrkjar fengju um áramót er langt undir því sem laun í landinu hafa hækkað á þessu ári og þau hafa hækkað frá því síðasta vor en aldraðir og öryrkjar ekki. Þetta er ekki spurning um prósentur, þetta er spurning um prinsipp, um það að aldraðir og öryrkjar fái sömu hækkanir á sömu tímum og aðrir.

Ég geri mér ekki vonir um að hv. þingmaður hlusti á okkur í stjórnarandstöðunni um þetta efni. En ég spyr hvers vegna hv. þingmaður hlustar ekki á samþykktir landsfundar Sjálfstæðisflokksins um það að þessir hópar eigi að fá hækkanir á sömu tímum og aðrir og sömu hækkanir. Hvers vegna hefur hv. þingmaður að engu ályktanir Landssambands eldri borgara, sem er sannarlega ekki leitt af okkur í stjórnarandstöðunni? Hverju svarar hv. þingmaður þeim fjölmörgu sjálfstæðismönnum um land allt úr röðum 60+ sem hafa kallað eftir því við þingmenn sína að þeir séu virtir hins sama og aðrir borgarar í landinu að fá sömu hækkanir á sama tíma?