145. löggjafarþing — 50. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[01:10]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef það er sannfæring þeirra þingmanna sem sátu í ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili að bætur eigi að hækka um leið og kjarasamningsbundnar hækkanir komu til, hvers vegna í ósköpunum lögðu þingmennirnir ekki í það verk að breyta löggjöfinni á þann hátt? Ég skil einfaldlega ekki hvers vegna menn koma hér upp núna fullir sannfæringar um að hlutirnir eigi að vera með allt öðrum hætti en þeir hafa verið hingað til. Ég skil ekki þessa umræðu. Eina skýringin á því er að hér sé um að ræða einhvers konar popúlisma.

Það er alveg ljóst að við höfum sett málin í þann farveg að Pétursnefndin er að yfirfara málaflokkinn í heild sinni með það að markmiði að einfalda kerfið og bæta það. Ég fagna því að sú nefnd fer brátt að ljúka störfum og ég vona svo sannarlega að þegar hún gerir það þá komum við til með að taka góða umræðu í þingsalnum og bæta kerfið með það að markmiði að eldri borgarar sem og öryrkjar fái notið þeirra bóta sem þeir eiga svo sannarlega skilið.