145. löggjafarþing — 50. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[01:14]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvort þingmaðurinn yfirgaf salinn, mér finnst eðlilegra að hún sé hér viðstödd þegar ég spyr hana. Hún hefur væntanlega talið að andsvörum væri lokið.

(Forseti (ÞorS): Forseti hafði ekki tilkynnt það.)

Nei, en ég geri ráð fyrir því. Það er svo langt liðið á nóttina. Hæstv. forseti. Ég held þá áfram. Ég veit að hv. þingmaður hefur bara ruglast lítils háttar. Hún er ekki vön að hlaupast frá því að svara þegar hún er spurð.

Ég kem hingað upp til að ræða málefni flóttafólks og hælisleitanda. Þann 19. september gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingu um að setja 2 milljarða í það verkefni að bregðast við þeirri flóttamannakrísu sem nú er í Evrópu þegar hundruð þúsunda og milljónir manna koma til Evrópu þar sem hrikalegt ástand er í heimalöndum þess. Mér reiknast til varðandi ráðstöfun þessara fjármuna að af þessum 2 milljörðum eigi 325 millj. kr., eða 16%, að fara í móttöku flóttamanna. Hv. þingmaður veit rétt eins og ég hversu mikilvægt er að við tökum á móti sem flestum í þeim efnum. Er hv. þingmaður sátt við að svo lágt hlutfall fari í það? Veit hún hversu mörgum flóttamönnum á að taka á móti?

Síðan eru það hælisleitendurnir, það eru 537 millj. kr. til viðbótar sem eiga að fara í það en ég tel að það sé fjárhæð sem ekki eigi að vera inni í þessum 2 milljörðum. Það eru skuldbindingar sem við eigum að taka á okkur óháð flóttamannakrísunni. (Forseti hringir.) — Ég ætla að nýta aðeins meiri tíma því að ég stóð hér og beið eftir þingmanninum í byrjun.

(Forseti (ÞorS): Forseti tekur tillit til þess.)

Ekki er verið að nýta þessa fjármuni til að leggja meiri metnað í þá móttöku. Núna er verið að keyra fólk út á flugvöll þar sem gengið er út frá því að allir Albanar hér á landi séu hér út af efnahagslegum ástæðum, á meðan æ fleiri benda á að mjög krítískt ástand (Forseti hringir.) er þar í landi. Er hv. þingmaður sátt við þessa ráðstöfun fjármunanna? Á ekki meira fé að fara í móttöku kvótaflóttamanna?