145. löggjafarþing — 50. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[01:17]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Auk þess sem hér var rætt um eru settir fjármunir til aðstoðar í nágrannalöndum Sýrlands, sem er gríðarlega mikilvægt. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar var ávallt hugsuð þannig að hún væri þríþætt, að hún færi í þrjú verkefni; móttöku kvótaflóttamanna, hælisleitendamálin og að fjármagna verkefni í nágrannalöndum Sýrlands.

Það er erfitt fyrir mig að meta það hvert hlutfallið á að vera. Ég hef ekki gögnin fyrir framan mig sem þeir eru með sem tóku þessar ákvarðanir. En það er alveg ljóst að þeir flóttamenn sem eru t.d. í Líbanon vilja fá að vera þar áfram, þeir vilja að alþjóðasamfélagið sendi þangað fjármuni svo þeir geti verið þar áfram, alveg eins og við mundum helst vilja ef við þyrftum að flýja héðan vegna náttúruhamfara, við mundum vilja vera í nágrannalöndum okkar sem við eigum eitthvað sameiginlegt með.

Hins vegar er alveg ljóst að það þarf að vanda mjög til móttöku kvótaflóttamanna. (Forseti hringir.) Ég veit ekki hver fjöldinn ætti að lokum að vera, enda finnst mér það ekki vera aðalatriðið heldur að við sinnum verkefninu vel (Forseti hringir.) og náum að veita þá þjónustu sem þörf er á.