145. löggjafarþing — 50. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[01:18]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er mjög mótfallin því að svona hátt hlutfall af þessum 2 milljörðum sé eyrnamerkt hælisleitendum. Þeir fjármunir eiga að koma óháð þessum 2 milljörðum. Hælisleitendur sem hingað koma, koma af ýmsum öðrum ástæðum en þeim að þeir séu á flótta frá Sýrlandi til að mynda. Það er ákall um að við tökum á móti kvótaflóttafólki. Það er svo sannarlega þörf fyrir það og að við tökum á móti mun fleira fólki en við gerum nú þegar. Það er óheppilegt að við séum ekki með skýrar áætlanir um hversu mörgum við ætlum að taka á móti.

Hins vegar er hér vaxandi þrýstingur hælisleitenda og þar eigum við að bregðast við af ábyrgð og fara ofan í þá ferla sem við vinnum eftir og vera með meiri greiningar á þeim aðstæðum sem fólk kemur úr, eins og t.d. varðandi Albani (Forseti hringir.) sem varla er mögulegt að fá hæli fyrir hér, og við sendum hjartveik börn til baka út í algera óvissu. (Forseti hringir.) En þar berjum við okkur á brjóst með þessum 2 milljörðum en reynum síðan ekki að bæta okkur í þeim efnum.