145. löggjafarþing — 50. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[01:20]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að ég og hv. þingmaður séum alveg sammála um meginatriðin í þessu máli, þ.e. að við viljum standa vel að þeim verkefnum sem okkur eru falin varðandi hælisleitendaþáttinn. Eins viljum við gera betur hvað varðar móttöku kvótaflóttafólks.

Ég tel hins vegar ekki rétt að setja fram einhverja tölu yfir það hversu mörgum kvótaflóttamönnum við ætlum að bjóða hingað til lands, heldur að við reynum að gera það vel sem við gerum, að við tökum við eins mörgum og við getum. Ég held að það eigi vera viðmiðið frekar en að hengja okkur í einhverjar tölur. Ég held að flóttafólk, sérstaklega frá Sýrlandi, sé komið með alveg nóg af því að við tölum þannig um hlutina. En enn er mjög mikið verk að vinna varðandi móttökumálin. Sem dæmi um það má nefna (Forseti hringir.) að við þurfum að fara yfir það eftir áramótin með hvaða hætti við sinnum t.d. móðurmálskennslu, ekki bara fyrir þennan hóp heldur fyrir þá innflytjendur sem fyrir eru.