145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

lengd þingfundar.

[10:34]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti telur sig ekki geta bundið sig við það að þessum þingfundi verði lokið fyrir kl. 12 í kvöld. Enn eru 18 manns á mælendaskrá, nær allir í fyrstu ræðu, og það er ljóst mál að þegar svo háttar til eins og gerði við upphaf þessarar umræðu, að um það bil 30 þingmenn höfðu óskað eftir því að taka til máls um fjárlagagerðina þar sem leyfilegur ræðutími er 40 mínútur, verður þetta ekki unnið í dagvinnu einni saman. Þá verður forseti einfaldlega að grípa til þess úrræðis sem hann hefur, að lengja þingfund með leyfi þingsins eins og hér er farið fram á.

Hins vegar er forseti ætíð reiðubúinn til þess að ræða málin jafnt við stjórn sem stjórnarandstöðu til að freista þess að greiða fyrir því að sem bestur árangur náist og að við getum fundið einhverja niðurstöðu varðandi þessa umræðu. Það stendur ekki á forseta í þeim efnum og hann lýsir sig reiðubúinn til alls slíks. Hann telur í sjálfu sér ekki óeðlilegt að umræða um fjárlög standi alllengi, vekur þó athygli á því að þegar litið er yfir lengri veg stóðu umræður um fjárlög jafnan 12–15 klukkustundir, kannski upp í 17, en á síðustu árum hefur brugðið út af því. Það brá út af því haustið 2012 ef forseta misminnir ekki og því miður er það svo að 2. umr. um fjárlög hefur staðið lengur síðustu árin en jafnan var.