145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

íslenskukennsla fyrir innflytjendur.

[10:42]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og vil fyrst segja að ég hef áður sagt að það sé mjög mikilvægt, nú þegar við erum til dæmis að ræða um þann fjölda flóttamanna sem við viljum taka á móti, að menn horfi til lengri tíma en bara þeirra mánaða eða þess tímabils þegar flóttamenn koma til landsins. Við þurfum að horfa til lengri tíma, til margra ára, sérstaklega hvað varðar barnafjölskyldurnar, og tryggja fjármuni í skólakerfið til að það geti tekið á móti þessum börnum. Við sjáum það í tölum, t.d. um læsi barnanna, að börn sem eru af erlendu bergi brotin mælast lakar í læsi en börn Íslendinganna. Þess vegna er alveg horft til þessa þegar kemur að því átaki sem við höfum núna hleypt af stokkunum og fjármagnað, átaki til að bæta læsi nemenda. Það gagnast öllum, bæði íslenskum börnum eða börnum af íslensku bergi brotin og líka erlendu börnunum. Það gagnast hópunum þar. Einna mestu máli skiptir að tryggja að öll börnin geti lesið og á íslensku þannig að það efni sem boðið er upp á í skólunum standi þeim til boða til gagns.

Ég ítreka að á næstu missirum þarf að horfa til þessara þátta. Ef við horfum til þess að við séum sérstaklega að taka inn fleiri flóttamenn þarf að horfa á það í heildarsamhenginu. Mér hefur fundist svolítið vanta í þessa umræðu akkúrat þann punkt sem hv. þingmaður tekur hér upp, að við séum með nægilegt fjármagn, bæði hvað varðar íslenskukennslu, það sé nægilegt fjármagn til að bregðast við þessu inni í skólunum, í leikskólunum og raunverulega í öllu menntakerfinu. Ég vil um leið líka segja að átaki eins og læsisátakinu er beint að öllum nemendum og á að gagnast þeim öllum.