145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

afturvirk hækkun bóta.

[10:49]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Svarið við henni er: Já. Þessi ráðherra hefur frá því að hún tók við embætti barist fyrir bættum kjörum lífeyrisþega og fyrsta skrefið sem var tekið í þá átt var að taka til baka þær skerðingar sem hv. þingmaður og félagar hans stóðu að 2009. Varðandi það hvernig staðið verður að hækkun bóta almannatrygginga frá og með 1. janúar 2016 byggist það, eins og hv. þingmaður ætti að kannast ágætlega við, á 69. gr. laga um almannatryggingar. Samkvæmt tillögum fjárlaganefndar við 2. umr. munu bætur almannatrygginga hækka um 9,7%. Áður hafði verið lagt til að þær mundu hækka um 9,4%. Það þýðir að bætur einstaklings eða einhleypings sem býr einn verða ívið hærri en lágmarkslaun, 246.902 kr. með heimilisuppbót

Mig langar aðeins að renna í gegnum hvernig þetta er reiknað. Hækkunin tekur mið af endurmetinni þjóðhagsspá Hagstofu Íslands í nóvember um þróun launavísitölu að frádregnu launaskriði. Það er hækkun á meðaltöxtum, bæði á yfirstandandi ári og því næsta. Í því felst að meðallaunahækkun ársins 2015 umfram 3% hækkun bóta almannatrygginga í byrjun þessa árs er innifalin í hækkuninni í fjárlögum ársins 2016. Sé 3% hækkunin tekin með nemur uppsöfnuð hækkuð á þessum tveimur árum 13%, sé einnig litið til 3,6% hækkunar árið 2014 nemur uppsöfnuð hækkun 17,1%. Á sama tíma hefur hins vegar uppsöfnuð hækkun verðlags verið 7,1%.