145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

hækkun launa og bóta.

[10:53]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég held að veiti ekki af að fleiri spyrji hæstv. félagsmálaráðherra í von um að hún sjái nú að sér. Þetta voru hörmuleg svör, það var eiginlega verra en að hlusta á fjármálaráðherra sjálfan fara með möntrurnar. Ég held að hæstv. ríkisstjórn verði að fara að gá að sér að fara rétt með tölur og vísa rétt í hluti. Það sem verið er að tala um í almannatryggingalögunum að eigi að taka hækkunum samkvæmt 69. gr. er ekki heimilisuppbót eða annað því um líkt samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, það eru grunnfjárhæðir elli- og örorkulífeyris, það er tekjutrygging samkvæmt 22. gr. og það eru greiðslur til barnafólks samkvæmt 63. gr. Ríkisstjórnin er beinlínis að reyna að villa um fyrir mönnum með því að taka inn í umræðurnar um þetta mál hækkanir á hlutum sem falla undir önnur lög.

Hagstofan birti í gær hækkun vísitölu launa á 3. ársfjórðungi þessa árs og hún er 7,9% borið saman við 3. ársfjórðung 2014. Á milli ársfjórðunga er hækkunin ein og sér 3,5% og eftir er að koma inn í vísitöluna á 4. ársfjórðungi samningar sveitarfélaga, úrskurður kjararáðs og fleira. Það er því algerlega ljóst að hækkanir árið 2014 upp á 3,6% og aftur í byrjun þessa árs upp á 3% eru svo fjarri því að hafa skilað elli- og örorkulífeyrisþegunum sömu hækkunum og aðrir hafa fengið að það þarf næstum alla 9,7% hækkunina á næsta ári til að komast aftur á núllið ef þetta er tekið eitt og sér og skoðað.

Svona rugl um milljarðasamlagningar sem ekki horfir til magnaukningar í kerfinu, fjölgunar elli- og örorkulífeyrisþega og slíkra hluta, eða prósentuþvæla breytir ekki veruleika þessa máls. Ríkisstjórnin og hennar lið ætlar að skilja þennan eina hóp eftir — þennan eina hóp. Hann á ekki að fá neinar kjarabætur á þessu ári. Það er veruleikinn. Það er þá kannski helst að leika eigi námsmenn í landinu svipað grátt. Þetta er hörmuleg frammistaða, hæstv. félagsmálaráðherra. Hér (Forseti hringir.) færðu tækifæri til að gera betur. Segðu okkur að minnsta kosti að þú hefðir viljað hafa þetta öðruvísi.