145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

hækkun launa og bóta.

[10:58]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Þær skerðingar sem ráðist var í á miðju ári 2009, sem voru auðvitað sársaukafullar en voru einfaldlega vegna þess að menn horfðust í þann veruleika að ekkert svið þjóðarbúskaparins eða ríkisrekstrarins gætu verið með öllu undanskilið, voru útfærðar þannig að þær voru fyrst og fremst bornar af þeim elli- og örorkulífeyrisþegum er höfðu miklar aðrar tekjur, voru í formi hækkaðra skerðingarhlutfalla, og þar með var sú lækkun sem komið hafði til framkvæmda 2007 færð aftur til fyrra horfs tímabundið til ársloka 2013. Það hefði fallið úr gildi án nokkurs atbeina þessarar ríkisstjórnar hvort sem er vegna þess að það var lögfest tímabundið. Grunnfjárhæðirnar voru hins vegar að fullu varðar. Þessi deila snýst um þær. Þessi deila snýst um þá sem ekkert hafa annað eða sem reiða sig fyrst og fremst á greiðslur frá tryggingakerfinu og hafa ekki aðrar tekjur. Þeir liggja enn þá óbættir hjá garði í tíð þessarar ríkisstjórnar.

Þegar kjarasamningar voru gerðir á miðju ári 2011, sem eru mjög sambærilegar aðstæður við þær sem við stöndum frammi fyrir á þessu ári, var þeim skilað til elli- og örorkulífeyrisþega að fullu samtímis (Forseti hringir.) öðrum launamönnum og meira að segja var 50 þús. kr. eingreiðsla samkvæmt kjarasamningum greidd til elli- og örorkulífeyrisþega, þannig að full hækkun í samræmi við hækkun lægstu (Forseti hringir.) launa, ekki bara meðallaunavísitölu, var þá skilað í þá átt. Það er nærtækasti (Forseti hringir.) samanburðurinn við það (Forseti hringir.) sem fyrri ríkisstjórn gerði í þessum efnum. (Forseti hringir.) Og nú á ekki að taka hana til fyrirmyndar að þessu leyti.