145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

matvælaframleiðsla framtíðarinnar.

[11:01]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Á undanförnum áratugum hafa orðið gríðarlegar tækniframfarir sem hafa meðal annars skilað okkur því að hægt er að láta líffæri vaxa og nýta til ígræðslu í menn og annað. Afleiðingarnar af þessu eru að einnig er hægt að rækta kjöt, það er hægt að láta kjöt vaxa til manneldis. Afleiðingarnar sem þetta hefur eru magnaðar. Þetta hefur til dæmis þær afleiðingar varðandi fiskveiði að við verðum ekki að veiða fisk, við bara gerum það ef við viljum, sem áhugamál. Við verðum ekki að ala dýr til manneldis, við þurfum bara að rækta vöðva. Hliðarafleiðingarnar af þessu eru gríðarlega mikið minni orka og ræktunarland við gerð kjötsins. Það er miklu minna um sýkla því að kjötið er ræktað í vernduðu umhverfi. Kolefnisáhrif af þessu, t.d. fyrir loftslagsráðstefnuna í París, eru gríðarleg.

Fyrirspurn mín snýst í rauninni um þetta. Hvað erum við farin að gera til að huga að þeim breytingum sem þetta kemur til með að hafa á efnahag okkar og alls heimsins? Vísindamenn gera ráð fyrir því að þessi tækni verði orðin samkeppnishæf við núverandi framleiðslu á innan við tíu árum.