145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

greiðsluþátttökuheimildir lyfjagreiðslunefndar.

[11:08]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þann 15. apríl síðastliðinn ritaði formaður lyfjanefndar Landspítala heilbrigðisráðherra bréf sem bar yfirskriftina „Greiðsluþátttaka leyfisskyldra lyfja, takmörkun á fjölda sjúklinga“. Í bréfinu er vakin athygli á því nýja vinnulagi sem byggir á fyrirmælum ráðherra til lyfjagreiðslunefndar, eins og segir í bréfinu, með leyfi forseta:

„Greiðsluþátttökuheimild frá lyfjagreiðslunefnd fyrir nokkur ný lyf er bundin við ákveðinn fjölda sjúklinga. Nú er svo komið að allar heimildir eru fullnýttar fyrir gigtarlyfið Benlysta, augnlyfin Ozurdex og Eylea og krabbameinslyfin Jevtana og Kadcyla og nýir sjúklingar, sem þurfa á lyfjunum að halda, fá þau ekki.“

Þetta var staðan þann 15. apríl þegar formaður lyfjanefndar vakti athygli ráðherrans á stöðunni og sagði enn fremur:

„Lyfjanefnd telur mjög brýnt að fjöldatakmörkun sjúklinga varðandi ákveðin lyf verði aflögð og óskar eftir því að ráðherra beiti sér fyrir því að þetta mál verði leyst nú þegar.“

Skömmu síðar sá umboðsmaður Alþingis einnig ástæðu til að rita bréf til heilbrigðisráðherra vegna sama máls og gera athugasemdir við verklag ráðuneytisins varðandi þetta. Þar er ráðherra minntur á að hann hafi stjórnunar- og eftirlitsskyldu og hefði átt að fylgjast með því að bætt yrði úr þeim annmarka sem þarna var bent á.

Nú spyr ég hæstv. heilbrigðisráðherra í ljósi þessara ábendinga umboðsmanns og lyfjanefndar Landspítalans hvort og þá með hvaða hætti ráðherra hafi eða hyggist breyta því verklagi sem hann hefur innleitt varðandi greiðsluþátttökuheimildir lyfjagreiðslunefndar. Ætlar hæstv. ráðherra að afnema þennan sjúklingakvóta?