145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

greiðsluþátttökuheimildir lyfjagreiðslunefndar.

[11:13]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ekki gott þegar hæstv. ráðherra þrætir eins og sprúttsali sem staðinn er að verki. Það er sjúklingakvóti við lýði (VigH: Það er rangt.) (Gripið fram í.) og þær fjöldatakmarkanir [Háreysti í þingsal.] sem beitt er (Forseti hringir.) við lyfjaniðurgreiðslu velta á fyrirmælum sem koma frá ráðherranum (Forseti hringir.) sjálfum.

Hæstv. forseti. Við lesum það í blöðunum í dag að það bíða 150 manns eftir hjartaaðgerð. (Gripið fram í.) Landspítalinn hefur leyfi fyrir 60 hjartaaðgerðum, það bíða 150 manns. Hvað er það annað en sjúklingakvóti? Það er nákvæmlega það sama sem viðhaft er við lyfjaniðurgreiðslu og ég er með bréf sem felur í sér fyrirmæli ráðherrans, ég get lesið það hér upp undir liðnum fundarstjórn forseta ef þess er óskað. Það er auðvitað óásættanlegt í siðuðu samfélagi að neita sjúklingi um bestu lyfjameðferð og beita fjöldatakmörkunum því að við ræðum hér um lífsbjargandi þjónustu, um lyf sem hindra (Forseti hringir.) blindu fólks og geta hjálpað því í baráttu við krabbamein. Það er óásættanlegt vegna þess að við eigum að vera ein þjóð í einu landi.