145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:50]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jón Gunnarsson er nú greinilega kominn í þann hóp þingmanna sem engin rök á lengur eftir í sínu vopnabúri önnur en Icesave-grýluna. Ég kippi mér ekki mikið upp við það sem að mér er beint í sambandi við það mál, get við tækifæri svarað betur fyrir það. En ég verð að segja að mér finnst sárt þegar að nafngreindir sómamenn úti í þjóðfélaginu þurfa að sæta því án þess að gerðar séu athugasemdir við það, að þingmaður þessarar gerðar skuli vega að starfsheiðri þeirra, uppnefna þá, hvort sem það eru háskólakennarar, virtir fræðimenn eða fyrrverandi alþingismenn og ráðherrar. Það sýnir auðvitað fyrst og fremst smæð hv. þm. Jóns Gunnarssonar að hann hegðar sér svona í skjóli þinghelgi. Þetta hefur alltaf þótt alla mína tíð hér á þingi um það bil það lélegasta sem þingmenn gera, þ.e. að bera sakir á eða fjalla óvirðulega um aðila sem hér geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér og gera það í skjóli þinghelgi.

Hv. þingmaður nefndi Icesave-málið og dró upp dökka mynd af því sem fram undan væri fyrir Ísland ef upphaflegu samningarnir hefðu verið samþykktir. Veruleikinn er sá að væntanlega öðrum hvorum megin við áramótin fær gamli Landsbankinn síðustu undanþáguna til að greiða upp að fullu höfuðstól Icesave. Það eru 211 milljarðar kr. og hann á orðið nokkurn veginn fyrir því í lausu fé í erlendri mynt. Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta gerði upp við Breta og Hollendinga og greiddi þeim yfir 20 milljarða kr. núna í haust, upp í umsýslukostnað og vexti. Þar með liggur það fyrir, að kostnaðurinn, þó það væri upphaflegi Icesave-samningurinn, væri brotabrot af því sem vissulega var á sínum tíma dregið upp fyrir mönnum að gæti orðið, enda tekið skýrt fram að þar væri dregin upp mjög varfærin mynd af því hvað eignir búsins mundu skila. Menn vildu ekki fegra myndina og sýna það hvernig þetta gæti mögulega orðið miðað við það sem þá þegar lá fyrir um verðmæti eigna í búinu. Það var jafnframt tekið fram sem hefur orðið raunin að vonandi mundi gamli Landsbankinn borga (Forseti hringir.) Icesave að fullu og það hefur hann gert eða er um það bil að gera. (Forseti hringir.) Grýla gamla er því löngu dauð ef menn horfa til staðreynda í málinu, en það hentar smámönnum hér að nota hana enn þá.