145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:55]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef þau orð um hv. þm. Jón Gunnarsson hér innan þingsalarins sem mér sýnist og ég tel þurfa og ef hæstv. forseti telur of langt gengið þá gerir hann athugasemdir þar við. Við eigumst hér við og getum svarað fyrir okkur, sá er munurinn á umræðum hér í salnum og því að víkja með þeim hætti að nafngreindum einstaklingum utan þings sem hv. þingmaður sannarlega gerði og við skulum lesa í eftirprenti af ræðu hans þar sem hann dró í efa að kennari við Háskóla Íslands væri til þess hæfur. Og þar sem hann uppnefndi fyrrverandi alþingismann og sendiherra og ráðherra.

Tafir á lausn Icesave-málsins urðu Íslandi dýrar. Þær töfðu framvindu samstarfsáætlarinnar með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum um níu til tólf mánuði. Þær töfðu það að efnahagsleg endurreisn á ýmsan hátt hefðist á Íslandi sem hefði getað orðið fyrr en ella. Þar liggur ógreiddur reikningur sem engin leið er að slá nákvæmlega máli á hversu mikið betur værum við á vegi stödd ef efnahagsleg endurreisn hefði hafist fyrr, ef árið 2010 hefði til dæmis orðið talsvert betra en raun varð á vegna þess að við hefðum ekki setið föst. Ísland átti fáa kosti í stöðunni. Það var niðurstaða fyrri ríkisstjórnar, ríkisstjórnar Geirs H. Haardes. Þess vegna lagði hún til að gengið yrði til samninga við Breta og Hollendinga um Icesave. Það var niðurstaða seðlabankastjóra og fjármálaráðherra þegar þeir rituðu undir það við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í nóvember 2008 að það skyldi klára Icesave-málið með samningum og það varð að lokum niðurstaða okkar þegar við horfðumst í augu við veruleikann sem blasti við Íslandi vorið 2009. Það var fast í skrúfstykki og það varð að komast út úr því til þess að efnahagsleg endurreisn landsins gæti staðist. Þeir sem vel til þekktu voru bjartsýnir á að málið mundi klárast á þann veg sem lagt var upp með vorið 2009, að við biðum eftir því að eignir gamla Landsbankans dygðu til að borga upp höfuðstólinn og þá yrði hitt allt saman viðráðanlegra. Það hefur orðið niðurstaðan, það hefur orðið raunin og yfir því ættum við að gleðjast. Það hefur ekkert með málalyktir að lokum að gera fyrir EFTA-dómstólnum né annars staðar, heldur einfaldlega það að sú leið sem var valin (Forseti hringir.) 2009 reyndist farsæl, að bíða eftir því að eignir Landsbankans gerðu reikninginn upp og hlífa (Forseti hringir.) og hafa íslenska hagkerfið í skjóli á meðan.