145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:48]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Hér er skjal sem kom inn á borð til okkar sem heitir Almannatryggingar. Nokkrar spurningar og svör frá velferðarráðuneytinu. Þar eru nokkrar áhugaverðar prósentur og tölur á því blaði, vantar nokkrar aðrar tölur, en þar er verið að tala um þessa 9,7% hækkun sem er tillaga fjárlaganefndar. Þar kemur fram að bætur þeirra sem búa með öðrum verða 212 þús. kr. en eru núna 193 þús. kr. Lágmarkstekjur eru miklu hærri. Ef bætur fylgja verðlagsþróun en eru undir lágmarksframfærslu þýðir það að bæturnar halda ekki í við það. Hlutfallslega verða þær þær sömu, en það vantar fleiri krónur, ef maður er þegar í mínus þá fer maður bara í meiri mínus í krónum talið. Smá prósentureikningur fyrir fólk. Í skjalinu er því velt upp hvort allir bótaþegar búi við fátækt. Þar segir með leyfi forseta:

„Hátt hlutfall atvinnulausra og öryrkja skortir efnisleg gæði árið 2013“ — hér er verið að vísa í það ár, það eru ekki komnar alveg nýuppfærðar tölur — „eða 21,5% atvinnulausra og 24,6% öryrkja.“

Þarna finnst mér vanta tölur, þarna finnst mér vanta hversu margir þetta eru. Þetta eru bara þeir sem eru undir mörkunum. Það eru þó nokkuð margir þarna á horriminni, alveg á núllinu og nokkrir sem eru nokkrum þúsundköllum yfir lágtekjumörkum. Það er því mjög stór hópur í viðbót sem vantar örugglega tölur yfir. Þarna er talað um að hlutfall fólks sem er undir lágtekjumörkum árið 2013 var 9,3% landsmanna. (Forseti hringir.) Af þeim voru langflestir á leigumarkaðnum eða 46%.