145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[13:01]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur fyrir virkilega fína ræðu. Ég mæli ræðuna út frá því að það var svo margt í henni sem er rökræðugrundvöllur. Ég vildi svo gjarnan koma inn á marga hluti því að margt kom fram í ræðu hv. þingmanns. Fyrst ætla ég að taka undir með hv. þingmanni að hér erum við að ræða mjög stefnumótandi plagg og málefni, sem eru fjárlögin hverju sinni. Þess vegna er alveg tilefni til að ræða það í þaula.

Í fyrsta lagi langar mig að koma inn á það sem hv. þingmaður ræddi varðandi eftirlit. Þegar við erum á neikvæðum nótunum tölum við um eftirlitsiðnaðinn, en ég held að við hv. þingmaður séum alveg sammála um það að við viljum sjá markaðinn eins frjálsan og mögulegt er þar sem neytendur og framleiðendur og seljendur komi sér saman um hvernig hann er æskilega uppbyggður. Við búum vissulega við mjög takmarkaðan markað, fákeppnismarkað.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún sjái fyrir sér einhvers konar — við förum gjarnan í samanburð á því hvað eftirlitsstofnanir, hver um sig, eigi að vera stórar. Sér hv. þingmaður fyrir sér einhverja mælikvarða á það hver stærðargráðan á að vera á stakar stofnanir?

Ég vil að lokum koma því að, til dæmis með Fjármálaeftirlitið sem hefur verið í umræðunni, að verið er að auka framlagið þar einmitt til þess að styrkja neytendastuðning.