145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[13:03]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessar spurningar. Þó að ræða mín hafi nefnilega verið svolítið þung á velferðarhliðinni þá er ég, sú sem hér stendur, með mjög frjálslyndan hægri fót og vil sjá frjálst viðskiptalíf. Ég vil sjá að við getum verið með öfluga samkeppni og líka í utanríkisviðskiptum. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að við verðum að losna við íslensku krónuna og taka upp alvörugjaldmiðil, af því að við erum einhvern veginn alltaf að reisa einhverja múra sem valda því að við getum ekki átt í eðlilegum viðskiptum. Það veldur skekkjum hér innan lands o.s.frv. Það er grunnurinn fyrir því til dæmis.

Það sama á við um eftirlitið, ef menn vilja fá frjálst, sanngjarnt samkeppnishæft viðskiptalíf sem er aðlaðandi fyrir erlenda fjárfesta, sem er aðlaðandi og gott að byrja að hefja viðskipti innan, þá þurfa menn að vera með öflugan eftirlitsiðnað, köllum hann bara það, og þá er ég að reyna að koma einhverjum jákvæðum formerkjum á það hugtak. Svíum hefur til dæmis tekist vel upp þar. Það verður líka til ákveðinn fyrirsjáanleiki. Við höfum verið svolítið gjörn á að vera alltaf að tala þessar stofnanir niður og segja: Heyrðu, af hverju er alltaf svona aukning til þeirra á meðan hinir eru að fá lækkanir?

Þegar spurt er um mælikvarðana held ég að mælikvarðarnir hljóti að vera kannski verkefnin sjálf og það hvaða aðstæður eru fyrir hendi hverju sinni, eins og til dæmis Samkeppniseftirlitið. Ef það er einfaldlega þannig að mál komi upp hjá þeim þar sem þeir þurfa að setja mikið af „rísorsum“ þá geri menn sér bara grein fyrir því að þeir þurfi fjármuni til þess og minnki síðan aftur framlögin þegar þeirri vinnu er lokið o.s.frv. þannig að menn gefi sér meiri sveigjanleika, en það verði um leið einhverjum treyst til þess að meta þann sveigjanleika sem þeir þurfa.

Við þurfum svo sem ekki að finna upp hjólið í þessu. Svíþjóð er mögulega land sem við ættum að horfa til. Við horfum til þeirra þegar kemur að opinberu (Forseti hringir.) fjárlögunum að miklu leyti. Kannski þarna líka.