145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:34]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Þessi umræða ber einkenni þess að það skortir markmið. Það er verið að rífast um það í raun hvar við eigum að draga línuna. Það veit enginn. Það er enginn sammála um það. Venjulega er það það sem við þurfum að byrja á til að við vitum hvað við erum að rífast um.

Erum við að miða við það að þessar upphæðir eigi að vera í lágmarkslaunum, í nauðsynlegum ráðstöfunartekjum sem eru þó nokkru hærri, yfir fátæktarmörkum? Þegar við vitum það getum við farið að tala um hverju breytingarnar skila. Nú erum við að tala um einfaldar prósentur fram og til baka án þess að tala liggi þar á bak við. Prósenta ofan á eitthvað verður að endurspegla töluna sem er þar á bak við.

Það er fólk, öryrkjar og aldraðir, undir fátæktarmörkum. Að minnsta kosti þarf að hífa það þangað upp. Næsta þrep er lágmarkslaun en á þeim er augljóslega fullt af fólki, fleira fólk en er undir fátæktarmörkum. Ef við förum í ráðstöfunartekjurnar, samkvæmt ýmsum greiningum, erum við komin upp í rúmar 400 þús. kr. á mánuði.

Ég mundi vilja sjá aðeins meira stefnuferli í því hvaða línu við eigum að miða við til að það sé ekki þrætuepli. Aðferðin til þess að gera það er að fara út og spyrja fólk, ekki að reyna að rífast um það hérna því að það hefur aldrei tekist. Engri ríkisstjórn hefur tekist þetta markmið, sem er ekki markmið. Af því að það er ekki markmið næst það aldrei.