145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:37]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sem svar við þeim spurningum sem koma fram hjá hv. þingmanni í þessu stutta andsvari má eiginlega segja að Samtök atvinnulífsins, fyrir hönd allra atvinnurekenda, og stéttarfélögin hafa komist að niðurstöðu um að hækka lægstu laun upp í 300 þús. kr. og gefa sér tíma til þess fram á mitt ár 2018. Það gerist í framhaldi af því að núverandi ríkisstjórn ruddi brautina með samningum við ýmsa opinbera starfsmenn.

Ætli byrjunin hafi ekki verið samningur sem ríkisvaldið gerði við framhaldsskólakennara? Þar var takturinn sleginn. Ég sagði í fyrri hluta ræðu minnar áðan að við gengishrun krónunnar í hruninu hafi þvílík stökkbreyting orðið og ég lít á þessar miklu hækkanir, sem eru háar í prósentutölum, sem lið í því að breyta launastrúktúr í landinu til samræmis við þessa nýju gengisskráningu á íslensku krónunni. (Gripið fram í.) Þarna hefur það verið gert og ríkisvaldið tók þátt í því og þá segi ég með aldraða og öryrkja: Já, þá á það að fylgja með. (Gripið fram í.) Ég hef ekkert annað viðmið til að taka mið af. Ég get verið inni í framfærsluviðmiðunum og allt það, sem eru hærri en þetta, en þetta er það sem atvinnulífið hefur komist að niðurstöðu um og ríkisvaldið tekur þátt í — já, og þá á ríkisvaldið bara eftir að semja við einn aðila sem er aldraðir og öryrkjar, hópur sem lifir langt undir fátæktarmörkum, hópur sem stjórnarstefnan er að gera að öreigum.