145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:49]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Þetta er mikið verk, fjárlög hvers ár. Ég afsaka að hafa ekki haft tíma til að koma gögnunum betur saman en það hefur verið mikið að gera á undanförnum dögum. Ég vil grípa niður á nokkrum stöðum, m.a. í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar, í fyrri hluta frumvarps til fjárlaga, Stefna og horfur, og í fjárlögunum sjálfum. Byrjum bara einhvers staðar.

Í nefndaráliti meiri hlutans um frumvarp til fjárlaga er talað um íþyngjandi löggjöf. Talað er um að ekki hafi verið gerð nákvæm úttekt á kostnaði löggjafar um dýravelferð. Nú eru tvö og hálft ár liðin frá því að lögin voru sett og fimm breytingar hafa verið gerðar á lögunum á því kjörtímabili. Spurningin er því ekki hvort gerð hafi verið nákvæm úttekt á kostnaði við framkvæmd og eftirfylgni laganna heldur af hverju það er ekki til kostnaðargreining eða alla vega reynsla miðað við framkvæmd undanfarinna tveggja ára. Það kaldhæðnislega er að í nefndaráliti meiri hlutans er svo sagt, með leyfi forseta:

„Samkvæmt upplýsingum frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti nemur árlegur viðbótarkostnaður stofnunarinnar“ — þ.e. Matvælastofnunar — „um 120–130 millj. kr. en í kostnaðarumsögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins var gert ráð fyrir 96 millj. kr. viðbótarkostnaði á ári.“

Það liggur sem sagt fyrir hvað þetta kostar. Upprunalega úttektin er til og einnig raunkostnaður. Löggjöfin er ekki íþyngjandi. Hún er kostnaðarsöm, en það hvort hún sé kostnaðarsöm er allt annað mál. Löggjöfin verður ekki íþyngjandi fyrr en framkvæmd hennar getur ekki skilað ætluðum markmiðum. Í áliti meiri hlutans segir, með leyfi forseta: „Reynslan af innleiðingu nýrra laga sýnir að verulegur kostnaður umfram áætlun er staðreynd.“ Nú hef ég fréttir að færa fyrir meiri hluta hv. fjárlaganefndar: Þetta er ekki nýmæli, hvorki í framkvæmd löggjafar, hugbúnaðargerð eða í öðrum verkefnum, sérstaklega stærri verkefnum þar sem aðstæður breytast oft og margir koma að. Mat á smærri verkefnum er yfirleitt nákvæmara. Þetta voru engin ný vísindi sem komu þarna fram. Það sem mér fannst áhugavert er að kvartað var undan tölum sem vantaði sem voru síðan líka í álitinu.

Ég fagna því hins vegar að verið sé að biðja um nákvæmari greiningu og ástæður fyrir kostnaði. 120–130 millj. kr. aukalega er mögulega meira en vonast var til að þessi liður kostaði.

Einnig er á blaðsíðu 6 í nefndaráliti meiri hlutans talað um útgjaldaþróun eftirlitsstofnana. Taflan þar er mjög vel gerð en hversu gagnleg er hún eiginlega? Það er ekki hægt að tala bara um hlutfallslega hækkun á útgjöldum, þótt sú tala sé auðvitað upplýsandi í sjálfri sér. Hún segir ekkert án útskýringa. Til dæmis getur 203% útgjaldaaukning Fjármálaeftirlitsins verið réttlætanleg og skilað beint eða óbeint meira til baka en útgjaldaaukningin segir til um. En ég tek undir orð meiri hluta fjárlaganefndar þar sem hann segir að markmið þurfi að vera skýr og mælanleg. Það sem vantar upp á að aðstæður bjóði upp á að viðkomandi stofnun geti náð þeim markmiðum og greint breyttar aðstæður er líka það sem þarf að liggja fyrir.

Það er verið að tala um fjarskiptamál og ég held að verið sé að tala um ljósleiðarann sem er bara svona: Júhú! Æðislegt! En lengi vel var til dæmis Svalbarði betur tengdur við internetið en Ísland. Það var mjög gaman þegar ég var í háskólanum að læra … [Símhringing.] — Netið er miklu betra núna, það næst meira að segja alla leið inn í þingsal. Sem betur fer hefur okkur gengið ágætlega að ráða bót á því. Ísland er núna betur tengt en Svalbarði eftir því sem ég best veit. Hvað mig varðar finnst mér ljósvegirnir mikilvægari en olíuvegirnir. Ég fór um allt land á malarvegum sem barn og naut þess vel þó að tíu klukkutíma rútuferðir upp á Snæfellsnes hafi svo sem ekki verið neitt gríðarlega spennandi, við vorum að elta ruðningsbílinn sem ruddi snjóinn, þetta voru svona þrír metrar í einu, rútan fór þrjá metra áfram. Það var mjög áhugavert. En áframhaldandi aukning í ljósleiðaravæðingu landsins er eitthvað sem ég fagna mikið og ég ætla að vona að nógu vel sé gefið í það verkefni. Betur má ef duga skal.

Ég hef talað um það áður í nokkrum andsvörum og á undanförnum missirum hefur oft verið rætt um fjölgun aldraðra. Það hefur náttúrulega verið þrætuepli undanfarna daga á Alþingi. Nú er það svo að fjölgun aldraðra er mjög fyrirsjáanleg þróun. Við vitum alveg hversu margir fæðast og hvenær þeir verða aldraðir. Það gerðist á 5., 6. eða 7. áratugnum að stærri barnaárgangar komur fram miðað við það sem áður var, að einhverju leyti ábyggilega af því að færri börn dóu ung. En í kjölfar þess hefur fæðingartíðni jafnast. Við erum með rétt í kringum tvö börn fædd sem er viðhald á fjölda mannfólks fyrir utan innflutta og útflutta og því um líkt. Það er ekki eins mikil breyting og var á þessum tíma. Núna er dreifingin á mannfjöldanum að verða mjög svipuð frá öldruðum til þeirra yngstu. Áður fyrr voru mjög margir yngri sem í rauninni kostuðu framfærslu þeirra eldri. Það var miklu auðveldara. Núna þurfum við að fara að búa til kerfi sem virkar fyrir núverandi aldursdreifingu og verðandi á næstu árum, sem verður eftir því sem allar bestu spár segja til um framtíðaraldursdreifing þjóðarinnar. Ég sé ekki að núverandi kerfi eða fjárframlög geri ráð fyrir því, þ.e. í fyrri hlutanum Stefna og horfur. Þetta er mikið rit og mætti endilega leiðrétta mig ef ég hef ekki fundið það.

Ég fer úr einu málefni í annað. Í fyrri ræðum í svörum við hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson töluðum við eilítið um opinbert velferðarkerfi. Mér heyrðist á svörum og andsvörum allra þingmanna sem voru hér og í hliðarsölum að markmiðið væri í raun og veru að sjúklingar þyrftu ekki að punga út pening í neinum mæli þegar þeir mættu á heilsugæslustöðvar eða annað. Mér finnst mikilvægt að halda því til haga að hvað sjúklinginn varðar er það ekki einkarekið heilbrigðiskerfi. Það er ákveðin skilgreining. En frá sjónarhóli sjúklings er enginn munur. Hann fær þjónustuna án þess að þurfa að borga fyrir hana, þ.e. hann er búinn að borga fyrir hana í gegnum gjöld og skatta óháð tekjum. Hvað lækninn varðar getur hann í einkaframkvæmd sinni sinnt verkefnum og tekið útboðum og því um líkt. Mér finnst nauðsynlegt að tala um þetta á réttum forsendum. Þegar við rífumst um einkaframkvæmd/ekki einkaframkvæmd skiptir þetta máli. Þegar annar armurinn gargar að einkaframkvæmd sé ómöguleg og hinn segir nei, þá verðum við að tala sama tungumálið til að við skiljum hvert annað.

Ég stikla á stóru. Framlög til samgönguframkvæmda. Það er áhugaverður texti í þessum kafla nefndarálits meiri hluta fjárlaganefndar. Þar er fjallað um að til þess að raunhæfar og árangursríkar áætlanir um uppbyggingaráform geti staðist þurfi að lækka vaxtagreiðslur ríkissjóðs með því að greiða niður skuldir. Í nefndaráliti meiri hlutans er svo að finna fullt af útgjöldum og endurskoðuðum tekjuliðum en ekkert um niðurgreiðslu skulda, ekki sem ég fann og hér er kinkað kolli, takk. Ég á það til að sjá ekki það sem er beint fyrir framan nefið á mér og það getur verið að mér hafi hreinlega yfirsést liðurinn og hann sé alveg gríðarlega góður í fjárlagafrumvarpinu sjálfu þótt hann sé ekki í nefndarálitinu. En ég sé hins vegar breytingartillögu á þskj. 532 þar sem gefin er heimild til aukinnar lántöku upp á 60 milljarða króna. Ég hugsaði: Nei, ég vil ekki meiri lán af því að þá borgum við meiri vaxtakostnað. Forgangsröðun. Kannski eru þetta lán sem verða ekki tekin, þetta er bara heimild til láns. En smá athugasemd varðandi það er að ef við erum að fara að taka 60 milljarða króna lán í viðbót með 10 milljarða afgang á ríkissjóði erum við í mínus 50. Ég vil vekja athygli á því og fá athugasemdir um hvernig staðan á lántökum og lánum fyrir næsta ár er.

Núna í dag var verið að dreifa nefndaráliti um skýrslu umboðsmanns Alþingis, og kemur fram í nefndarálitinu að eigi að minnka framlag til um 13 millj. kr. Ástæðan fyrir því er að umboðsmaður er að flytja í eigið húsnæði og leigan var áður 13 milljónir. Ástæðan fyrir lækkun um 13 milljónir er að hann þarf ekki lengur að borga leigu, eins og það kosti ekki neitt að vera í eigin húsnæði. Það er náttúrulega ekki alveg rétt. En hins vegar, með leyfi forseta, segir í áliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að umboðsmaður hafi þurft „að bregðast við auknu álagi sem stafar af auknum fjölda kvartana en þær hafa farið úr 300 og upp í 500 á ári“, þ.e. þær hafa aukist um 40%. Og „... sérstök áhersla hefur verið lögð á það á kostnað annarra verkefna umboðsmanns“, þ.e. að bregðast við þessum kvörtunum. Einnig hefur umboðsmaður ekki getað birt upplýsingar um mál sem hafa verið afgreidd þótt gagnlegar upplýsingar hafi verið til í öðrum málum, vegna álags. Umboðsmaður telur þörf á að bæta upplýsingaflæðið. Auk þess hefur umboðsmaður einfaldað alla málsmeðferð, stytt bréf og álit, til að létta á vinnslu. Það hefur því mikið verið gert til þess að auka hagkvæmni eða hagræða í vinnslunni. En mjög mörg frumkvæðismál bíða afgreiðslu hjá embættinu. Samkvæmt lögum er umboðsmanni skylt að sinna frumkvæðismálum, sem hann hefur ekki efni á. Þar af leiðandi biður hann um 15 millj. kr. aukafjárveitingu. Munurinn er 28 milljónir. Hann missir 13 milljónir og fær ekki 15 milljónir. (Gripið fram í: … munur á því?) — Varaformaður fjárveitinganefndar ...

Mig langar aðeins að drepa á leiðréttinguna líka. Það er enn verið að greiða hana út. Það er vaðið úr einu í annað. Eru ekki allir að taka punkta? Leiðréttingin sem framsóknarmenn slá sér á brjóst fyrir, og að einhverju leyti réttilega svo, er réttlætisleiðrétting. Þeir segja það og ég skal alveg taka undir það. Hvort það sé það sem þeir lofuðu nákvæmlega upp á krónutölur og o.s.frv. skulum við láta liggja milli hluta. Það sem ég vil segja er að þeir sem fengu leiðrétt lán, það er hægt að rökstyðja að það sé réttlát leiðrétting út af verðbólguskotinu sem varð. En — þetta er rosalega stórt en — það er svo augljóst að það eru miklu fleiri sem urðu fyrir sama skaða en fengu ekki leiðréttingu. Þar liggur beint við að nefna námsmenn, þá sem eru með námslán. Það voru 8,8 milljarðar eða eitthvað því um líkt sem hefði kostað að leiðrétta lán þeirra á sömu forsendum. Svo eru það sjálfsögðu leigjendur og í rauninni allir aðrir sem urðu fyrir skaða út af verðbólguskotinu. Eitthvað af því er væntanlega verið að leiðrétta í nýgerðum kjarasamningum. Það má segja sem svo að sú rosahækkun á launum sé leiðrétting á borð við húsnæðislánaleiðréttinguna. En eftir standa námsmenn með námslánin sín sem eru verðbólguskotin og leigjendur í rauninni enn þá. Það er ekkert hérna sem hjálpar til þar. Ég kalla eftir að við klárum þetta, höldum áfram á leiðréttingarnótum, en líka að þær séu sanngjarnar. Ef það á að vera réttlátt verður það að vera réttlátt fyrir alla. Annars er það ekki réttlátt. Réttlátt fyrir suma er ekki réttlátt. Höfum það á hreinu.

Í frumvarpi til fjárlaga þar sem talað er um stefnu og horfur er örstuttur kafli um opinber innkaup og rafræna stjórnsýslu. Hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir minntist á það í ræðu sinni og ég svaraði þar stuttlega. Þar er stefnt að því að ná fram 2–4 milljarða kr. hagræðingu á ári í innkaupum á almennum vörum og þjónustu en að það taki nokkur ár. Nú eru opinber þjónustukerfi miklu meira en bara innkaup. Ég hef verið í verkefni þar sem verið var að greina hugbúnaðarþörf einnar stofnunar sem fór upp í um 100 milljónir, þörfin á nýjum hugbúnaði til að sinna verkefnum. Síðan þá hafa bæst við verkefni. Það er mjög mikilvægt að fara að byrja sem fyrst því að það bítur okkur meira og meira í rassinn að leysa ekki upplýsingatæknivandamálin, sem eru svo mikilvæg í samskiptum við almenning. Til þess að við getum leyst þetta vandamál þurfum við að einbeita okkur mjög mikið að menntun þeirra sem geta leyst þau vandamál. Það þarf þekkingu til að leysa þau mál á góðan og farsælan hátt því að við kunnum alveg söguna af hugbúnaðarþróun innan hins opinbera. Það eru ýmis stórslys sem hafa orðið þar, mjög dýr hugbúnaðarverkefni sem hafa ekki skilað neinu. Það voru fréttir fyrir nokkrum mánuðum síðan um hugbúnaðarfyrirtæki fyrir norðan sem voru mjög áhugaverðar og upplýsandi og það er meira til.

Ég rak augun í eitt varðandi Íbúðalánasjóð í nefndaráliti meiri hlutans. Þar segir, með leyfi forseta, á blaðsíðu 11: „Samkvæmt upplýsingum frá sjóðnum nema ný útlán 5.075,1 millj. kr. frá ársbyrjun til októberloka en á sama tíma eru greidd upp lán sem nemur 28,5 millj. kr.“ (Gripið fram í.) Það stendur milljónum. (Gripið fram í.) Það er það sama hérna, hér stendur 5.075,1 millj., punktur, og hins vegar er 28,5 millj. En sem sagt, munurinn er þarna á 5.000 og 28. Mér finnst þetta rosalega mikill munur á tölum. Ég mundi vilja fá útskýringu á því hver munurinn er. Er ekki verið að tala um upphæðina sem verið er að greiða í þau lán sem eru þegar í útláni, í 28,5 millj. kr. tölunni? (Gripið fram í.) Þetta er allt í lagi, ég spurði hann. En það væri áhugavert að fá meiri upplýsingar um stöðuna þarna. Þetta eru sláandi tölur. Þetta er ekki sexfaldur munur eins og er sagt þarna, þetta er miklu meira en sexfaldur munur.

Aðeins á öðrum vettvangi eru fjáraukalögin fyrir núverandi ár. Þar er liður fyrir þjóðkirkjuna, biskup Íslands, um 370 millj. kr. sem eru útskýrðar þannig að verið sé að efna kirkjujarðasamninga að einhverju leyti, að því er mér sýndist afturvirkt. Þar sem ég finn textann ekki eins og er leyfi ég því að standa. En ég vildi bera töluna saman við menntakerfið. Þessar 370 milljónir er reksturinn frá ríkinu á Bifröst á ári. Heill háskóli, gerið svo vel, á einu ári. Mér finnst það sláandi. Þetta er fyrir fjáraukalögin núna og greinilega afturvirkt og þá skoða ég kirkjumálin í frumvarpi til fjárlaga 2016 þar sem breyting á fjárlagalið kirkjumála er um 7,5% eða breyting frá reikningi ársins 2014 11,6%. Þetta eru mjög háar tölur, 5.848 milljónir, 5 milljarðar þarna. Ég vildi bera það saman við heilbrigðiskerfið, ekki endilega í nákvæmum upphæðum því að í heilbrigðiskerfinu eru mikið fleiri krónur, sem fara fram þar. En í nefndarálitinu birtist eilítil tafla um þróun framlaga til heilbrigðismála. Þar er talað um fjárlög 2013, 2014, 2015 og frumvarp 2016 og tekin fram breyting þar á milli. Nú er sagt að breyting frá fjárlögum 2015 sé 9,9%. Þessi breyting á framlagi til kirkjunnar er þarna 7,5%. Hins vegar tekur hvorugur liðurinn inn verðbólgu. Það sem mér finnst áhugavert þegar ég skoða fyrri fjárlög er að tölurnar sem notaðar eru í nefndarálitinu eru ekki nákvæmlega þær sömu. Það munar milljarði þar á. En ef ég tek tillit til hækkunar á milli ára og verðbólgu og skoða hversu mikið framlög til heilbrigðismála hafa hækkað á hverju ári umfram verðbólgu er það í kringum 10% án verðbólgu, í kringum 6,9% með verðbólgu. Þá er það miðað við 2,9% verðbólguviðmið Hagstofunnar. Ef við förum út í verðbólguviðmið banka erum við komin í 3,9%, sem núverandi fjárlagafrumvarp gerir ráð fyrir umfram verðbólgu, hækkun á fjárlögum til heilbrigðismála miðað við í fyrra. Ef ég tel árin án verðbólgu aftur sem meira er lagt til heilbrigðismála en núna er það 2000, 2001, 2002, 2003, 2004, 2005, 2007, 2008, 2009, 2012 og 2014. Ef við tökkum tillit til verðbólgu eru það 2000, 2002, 2003, 2004, 2007. Þetta eru þau ár þar sem meira hefur verið lagt til heilbrigðiskerfisins en gert er í ár. Það er vissulega rétt að aldrei hefur verið sett hærri krónutala til heilbrigðiskerfisins en við vitum hvernig verðbólgan virkar og verðum að gera ráð fyrir henni. Við verðum að tala hreinskilnislega um hana. Hún er oft mjög hentug þegar við erum að tala um krónur fram og til baka, sérstaklega þegar við berum saman ár. Ég vildi vekja athygli á því að þegar talað er um að aldrei hafi verið lagt meira í heilbrigðiskerfið krónutölulega séð þá er það hárrétt. Með tilliti til verðbólgu og annars er það ekki rétt. Hækkunin hefur verið meiri en hún er núna mörg önnur ár. Þetta eru grófir reikningar hjá mér. Það má endilega einhver fara yfir þá og sanna að ég hafi rangt fyrir mér eða rétt fyrir mér. Ég hlakka til þess. En ég læt þetta gott heita í bili.