145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:18]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alger lúði og gleymdi gagninu sem ég var með á stafræna forminu. Er það nú pírati.

Frá Öryrkjabandalagi Íslands er fjallað um ályktun eða áskorun sem það er með til þingmanna. Kannski má koma að því í annarri ræðu ef hún kemst að, það nær því örugglega einhver. Þar er meðal annars minnt á að lífeyrir almannatrygginga hækki um 15 þús. kr. frá 1. maí 2016 samhliða hækkun lágmarkslauna en nú erum við að tala um afturvirkni til maí. Við viljum væntanlega vera tilbúin fyrir næsta maí líka. Ég veit ekki hvort það er inni í fjárlagafrumvarpinu eins og það er.

Það er rétt samkvæmt tölunum hjá mér að það varð lækkun til heilbrigðismála, mjög lítil lækkun á framlagi miðað við árið áður, 2010, 2011, en yfirleitt hefur alltaf verið hækkun fram yfir verðlag. Það eru frekar augljósar ástæður af hverju, ef það er rétt sem hv. þingmaður segir að eftirlitsstofnanir hafi blásið út á sama tíma. En ég skynjaði það alla vega sem utanaðkomandi maður þá, að eftirlitsstofnanirnar hafi brugðist í kjölfar hrunsins og ákveðin köllun hafi verið eftir því að efla þann iðnað, ef svo má að orði komast. Ég held að það hafi verið pólitískur vilji eða almennur vilji til að gera eftirlitið betra. En ég er algerlega sammála hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni um að eftirlit þarf að vera rosalega markvisst og skilgreint. Ég hlakka til að þeir málaflokkar verði betur útfærðir ef þeir eru það ekki nú þegar.